Fasteignaverð vs. fasteignamat

Þar sem ég er að leita mér að íbúð er ég mjög áhugasöm um fasteignaverð og fasteignaverðmyndun. Þar sem fasteignamarkaður er blákaldur þessa mánuðina er varla til neitt sem heitir markaðsverð. Ég er í hópi þeirra sem trúðu ekki að verðið gæti aldrei annað en hækkað. En nú er hann risastórt spurningarmerki.

Ég er alls ekki sæl með meintan kaupendamarkað. Í fyrsta lagi langar mig ekki að kaupa íbúð af fólki sem selur út úr neyð. Og af enn meiri eigingirni verð ég að segja að auglýstar eignir eru fæstar mér að skapi. Ég er með þrjú einföld skilyrði: svæði, svalir og stofur. Og svo nokkur aukaatriði sem saman geta orðið að aðalatriði.

Ég veit um a.m.k. eina manneskju sem hringdi nýlega í Landsbankann og spurði hvort hann hefði íbúðir til sölu. Svarið var nei.

Eignir eru engu að síður settar í söluferli. Hvernig á að ákveða verðið? Mér þætti ekki óeðlilegt að líta til fasteignamats. Margar íbúðir í mörgum hverfum hafa verið fasteignaverðmetnar undanfarin ár. Við það yrði spurningarmerkið sýnu minna.

Að vísu hef ég sannreynt að jafnvel á kaupendamarkaði er fasteignamat Fasteignaskrár Íslands varhugaverð vísindi. En hvað er skárra? Og ég er mjög hugsi yfir síðustu meintu bommertu í fréttum. Hús í Skerjafirði á 75 milljónir og annað í Garðabæ á 42 milljónir. Ég fletti götunum upp í fasteignamatinu og gat ekki betur séð en að söluverð íbúðareignanna væri nálægt fasteignamatinu. Og þótt e.t.v. sé lítið að marka uppgefið fasteignamat gef ég sjálf minna fyrir mat fasteignasala sem hafa komið mér fyrir sjónir sem hagsmunaaðilar háa verðsins. Það gæti verið vegna þess að þeir fá hlutfall af söluverðinu í þóknun. Ég bið alla heiðarlega fasteignasala afsökunar á tortryggninni.

Ef einhver getur rekið þessar beisku skoðanir ofan í mig og sannfært mig um alheilindi fasteignasala lofa ég að kyngja þeim með góðum ávaxtadrykk. Kannski rúgbrauði líka. Og láta vita.

Ég get hins vegar ekki myndað mér sjálfstæða skoðun á atvinnuhúsnæði og eðlilegu söluverði þess. Áhugaleysið er bara ögn of mikið. Munurinn á 175 og 75 milljónum bendir þó til þess að einhver sé á rangferð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband