Gagnlegur hverfisfundur

Í gær var haldinn hógvær hverfisfundur miðborgar Reykjavíkur með framsögu (eins) skipulagsstjóra, (eins) skrifstofustjóra á mannvirkjasviði og eins íbúa. Ólöf, Ámundi og Brynhildur fluttu öll fín erindi, Ólöf um almennar skipulagshugmyndir, Ámundi um fyrirhugaðar framkvæmdir og Brynhildur um framtíðarsýn. Allsnarlega rifjaðist upp fyrir mér það raunalega tímabil þegar ég átti heima í Ingólfsstræti og hraktist þaðan vegna desíbelaónæðis af Déja vu í Þingholtsstræti og eðlisbreytingar á Ara í Ögri gegnt húsinu mínu.

Ég var verulega pirruð það árið. Og það var smitandi. Arg. [Hrollur.]

Að sumu leyti heyrist mér þetta hafa versnað með lengri afgreiðslutíma, fólk fer út á götu með hrópum og brýtur glös í dögun og köllin dofna ekki fyrr en í hávaðanum af götusópnum þegar birtir ögn meira af degi.

Frekar mikið ónæði í miðbænum. En mér skildist líka að vertum hefði verið gert að draga niður í tónlistarhljóðunum til hagsbóta fyrir íbúa og einskis skaða fyrir notendur á stöðunum. Það versta sem gæti hent sölumanninn á barnum væri að fólk næði að tala saman og drykki hægar fyrir vikið þannig að það er augljóst í hverju hagsmunirnir felast. En mér heyrðist vilji borgaryfirvalda standa til þess að skrúfa frekar niður, horfast í augu við vandann og virkilega snúa hann niður.

Kannski er tortryggnin á undanhaldi hjá mér og ég of trúuð á að menn vilji vel (ég vil þá líka trúa um stund) en mér heyrðist margt forvitnilegt í farvatninu. Að vísu deildu menn um staðsetningu Listaháskólans (og starfsemi hans) og Landspítalans, og háhýsabyggingin í Skuggahverfinu var að vonum gagnrýnd en fulltrúar borgarinnar sýndust mér hlusta af skilningi og góðkynja athafnavilja.

Fundurinn hefði auðvitað aldrei orðið svona þéttur og góður ef ekki hefði allt þetta góða miðbæjarfólk mætt á fundinn og spurt gagnlegra spurninga. Skemmtileg finnst mér hugmyndin um að gera torgið á mörkum Óðinsgötu og Nönnugötu vænt fólki frekar en bílum og að koma upp nestisaðstöðu í Hljómskálagarðinum (eða var það Hallargarðurinn?) því að litlu atriðin í nærþjónustunni skipta miklu máli.

Ef ég fengi að ráða yrði síðan aðalspítalinn byggður upp í Garðabæ en ekki við Hringbraut og mín vegna mega Garðbæingar líka fá innanlandsflugvöllinn (er ekki aðalmálið að geta lent þyrlu á sjúkrahússþakinu?). Listaháskólinn færi vel við höfnina og hana Hörpu ef hún verður einhvern tímann barn í brók. Og Kristín nágranni kom með gagnlega ábendingu um að ruslaföturnar laði að sér vespur (og geitunga) í skásta sumarveðrinu og þess vegna eiga þær að vera á að giska 2 metra frá bekkjunum en ekki fastar á þeim. Ráðamönnum er nefnilega hollt að hlusta á notendur þjónustunnar, þeir vita hvað þeir syngja.

Og bók Hjörleifs Stefánssonar barst enn í tal. Það er búið að bjóða mér hana til láns og nú verð ég að ganga eftir því.

En ég vandaði mig við að þegja á fundinum enda voru nægir um hituna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband