Má leita að fíkniefnum?

Í vikunni henti það að ég frétti af fíkniefnaleitinni í framhaldsskóla á bloggi en ekki í frétt. Og þar með fékk ég skoðun með fréttinni og ekki bara hreinar og beinar og jökulkaldar staðreyndir. Og mér fannst ekkert.

Fyrsta kastið fannst mér ekkert. Ég yppti öxlum. Hugsaði að mér hefði staðið slétt á sama í menntaskóla. Hef að vísu aldrei verið á svona vettvangi.

Ég kom þessu á tal við fólk. Sumum finnst alveg einboðið að gera svona nokkuð, ungt fólk þurfi aðhald, vandinn hafi hafist þegar mæður fóru út á vinnumarkaðinn og ungt fólk þurfti að sjá meira um sig sjálft, lyklabörnin urðu til og enginn var heima til að taka á móti og ala daglanga önn fyrir ungviðinu.

Öðrum fannst út í hött að brjóta á mannréttindum fólks með hundum sem hnusuðu á viðkvæmum stöðum, þetta væri niðurlægjandi. Ég hugsaði: Þeim sem hefur ekkert að fela má á sama standa þótt hundur þefi, en var samt ekkert sannfærð.

Nú er ég búin að lesa rökræður á öðru bloggi og er svoleiðis kolfallin fyrir þeim rökum sem þar birtast.

Forvarnagildið er ekkert. Rökstuddur grunur var enginn. Eftirtekjan var engin. Og hvar á næst að bera niður, í Kringlunni? Framkvæmdastjóranum gæti fundist óeðlilegt hversu margir versluðu ekki og hann gæti ályktað sem svo að fólk væri bara að leita sér að skjóli fyrir veðrinu og ætlaði ekkert að versla af því að allir peningarnir væru farnir í dóp.

Þetta er ekki orðalag frá Ævari Erni á bloggi Gísla málbeins en þótt ég geri rök hans að mínum verð ég samt að nota eigið orðalag.

-Svo mætti líka hafa nokkur orð um áhuga FB-liða á að hafa árshátíð á Selfossi, en á því máli hafði ég strax mjög skýra skoðun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband