Miðvikudagur, 17. febrúar 2010
Kristbjörg Kjeld kom út á mér tárunum

Ein neikvæð gagnrýni kom næstum í veg fyrir að ég færi að sjá Mömmu Gógó eftir Friðrik Þór en mömmu langaði svo mikið (með mér) að ég lét slag standa. Kannski hjálpaði til hvað ég vænti lítils, en eiginlega skammast ég mín fyrir vantrú mína því að ég man ekki eftir Kristbjörgu Kjeld öðruvísi en fantafínni leikkonu. Núna fór hún langt fram úr öllum væntingum.
Mér skilst að sagan sé að einhverju leyti persónuleg, eins og á sjálfsagt við um mörg handrit. Börn náttúrunnar koma við sögu, 79 af stöðinni er skeytt saman við myndina, deCode-hlutabréf spila hlutverk, spilling, græðgi, misvitrir stjórnmála- og bankamenn. Engu er ofgert, hvergi farið fyrir strikið, oft ástæða til að hlæja sem og pakkaður salurinn gerði líka svikalaust. Svei mér ef fólk er ekki farið að láta alls konar upphrópanir eftir sér, gisp og styttri og lengri rokur.
Hilmir Snær sannfærði mig í hvívetna um að hann væri áhugasamur kvikmyndagerðarmaður, rati í fjármálum, sæmilegasti fjölskyldufaðir og einstaklega natinn sonur. Ég þekki mann sem er í þessa átt, svona út og suður, glópur að sumu leyti og snillingur að öðru. Allir geta þekkt svona einkenni í einni og sömu manneskjunni.
Kristbjörg, ó, með byrjandi heilabilun, glæsileg og gáfuð, ljúf við suma, hranaleg stundum við aðra, sjálfbjarga en samt upp á soninn komin, glöð á svipinn, jákvæð, bjartsýn og með glöggt auga fyrir fegurðinni en þegar heilabilunin færði sig upp á skaftið og hún missti valdið yfir tímanum fór gleðin úr augunum.
Ég veit ekki til þess að ég þekki neinn heilabilaðan þannig að ég get ekki fullyrt að myndin hafi verið rétt en mikið er ég þakklát fyrir að mamma skyldi vera svona fylgin sér og draga mig í Háskólabíó.
Svo vona ég að RÚV virði ekki eigin hótun um að hætta að kaupa íslenskt efni því að þeir sem láta undir höfuð leggjast að sjá hana í bíó ættu a.m.k. að sjá hana í sjónvarpinu. En eigi maður 1.200 krónur sem maður er hættur að nota ætti maður að splæsa honum á myndina. Ef maður hefur sama smekk og ég.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.