Hætta við lífið sjálft

Orð eru dýr og ég ætla að vanda mig svo að þau verði ekki send til læknis ...

Í nokkuð mörg ár hef ég farið sem leiðsögumaður í hvataferðir á jökla, einkum Langjökul. Aldrei hef ég óttast um öryggi mitt eða farþeganna. Aldrei hef ég lent í slíku veðri að ég teldi neinum standa ógn af. Aldrei hefur barn eða unglingur verið með í för.

Einu sinni man ég eftir farþega sem kom niður í lobbí á háhæluðum sandölum og var á leið á jökul. Samferðafólk hennar sneri henni við á punktinum. Þá kom hún niður í lokuðum háhæluðum skóm. Það var hennar besta boð. Annars er fólk yfirleitt þokkalega skynsamlega klætt.

Á jökli fær fólk húfu, vettlinga, samfesting og hjálm, og ef fólk er ekki í góðum vatnsþéttum skóm fær það utanyfirskó til að hlífa sínum eigin. Ég veit ekki hvort það er í hverri ferð, varla en ég veit það ekki, sem eitthvað tapast. Ég veit að á hverri vertíð snjóar úr safninu og það þarf þá að endurnýja.

Jökulferð felur gjarnan í sér ferð á jeppa úr bænum (ég hef aldrei farið öðruvísi) og þessum jeppum hefur oft verið breytt eitthvað til að komast víðar, eru á stærri dekkjum o.þ.h. Þeir kosta mikið og það kostar að breyta þeim, eldsneytið kostar, tryggingarnar, viðhald og önnur endurnýjun.

Sleðafyrirtækin eiga tugi sleða sem eru geymdir úti löngum stundum. Þeir kosta og það kostar að endurnýja þá. Ef hver einasti þeirra ætti að vera búinn öllum bestu hugsanlegu tækjum, s.s. staðsetningartækjum, erum við auðveldlega að tala um 50-60 stykki hjá hverju sleðafyrirtæki. Vasaljós og ábreiða koma þar til viðbótar.

Kostnaðurinn félli á kúnnann þegar upp yrði staðið.

Ég vil ekki gefa afslátt af öryggisatriðum en ef menn hafa reiknað rétt að yfir 90.000 manns hafi farið á jökul á síðasta ári held ég að við getum alveg slegið því föstu að öryggis sé vel gætt. Jöklar eru náttúrufyrirbrigði og hlýða ekki lögum mannanna sem fyrir vikið þurf að laga sig að lögmálum jöklanna. Og ég leyfi mér að halda því fram að þeir geri það, það sé reglan.

Spurningar sem hafa vaknað í mínum umgangshópi eftir óhappið um síðustu helgi þegar mæðginin urðu viðskila við hópinn varða fyrst og fremst síðasta spölinn eftir að bylurinn skall á. Gylfi hjá snjósleðafyrirtækinu sagði í Kastljósi í vikunni að hann hefði endurskipulagt ferðina í lokin þannig að þrír sleðar keyrðu saman. Ef mæðginin misstu af þeim tveimur sem keyrðu með þeim, er þá ekki sá öryggispunktur lítils virði? Hefði þyrla séð blikk frá vasaljósi þegar skaðinn var skeður? Var bylurinn ekki of svartur?

Vinkona mín í stétt leiðsögumanna sem fer í stöðugar göngur allt sumarið með vana göngumenn hefur lent í þvílíkri fyrirvaralausri blindaþoku að hún hefur bannað fólki að víkja af leið til að pissa, ella myndi það týnast. Það hefur mjög skyndilega kólnað svo mikið að hún sem er alltaf búin undir allt það versta hefur verið orðin mjög köld og fólkið hennar sömuleiðis. Þá er fyrir mestu að missa ekki móðinn og ganga eftir staðsetningartæki eða áttavita.

Sjálf ætla ég ekki að dæma um það sem gerðist í ferðinni um liðna helgi. Það er sjálfsagt að skoða, rýna til gagns, endurmeta og e.t.v. setja (nýjar) reglur af sanngirni og með tilliti til fenginnar reynslu. En ég er ekki sannfærð um að nein önnur mannleg mistök hafi verið gerð en þá þau að stunda ævintýraferðir yfirleitt.

Það getur líka verið hættulegt að fara yfir gangbraut á grænu ljósi.

En björgunarsveitirnar eiga lof skilið sem og þau fyrirtæki sem eru með björgunarsveitarmenn í vinnu og sleppa þeim burtu þegar nauðsyn krefur. Ég á ekki orð til að lýsa aðdáun minni þannig að nú segi ég amen eftir efninu og set punkt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þú ert alveg einstök

Rakel Sigurgeirsdóttir, 21.2.2010 kl. 02:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband