Sunnudagur, 21. febrúar 2010
Fjöldi í sveitarstjórnum
Ég fylgdist spennt með æsispennandi prófkjörum í gær en var ekki viss hvort bæjarfulltrúar í Kópavogi væru sjö eða níu. Gáði svo, enda er upplýsing besta leiðin til að eyða ... óvissu. Hey, þau eru 11! Og á síðasta ári bjuggu í Kópavogi 30.395 manns, stanslaus fjölgun frá 1997 (lengra aftur sé ég ekki á Hagstofuvefnum). Verður kannski fjölgað í 13 þegar 35.000 íbúa múrinn verður brotinn?
Ég er núna meira þeirrar skoðunar að sameining sveitarfélaga sé rétta skrefið. Hvers konar forystublæti er þetta í hverfum? Og það er ekki nokkur leið fyrir ókunnuga að sjá hvar Fossvogurinn endar og Kópavogurinn tekur við - ætti kannski að setja sérstakan Fossvogsstjóra?
Athugasemdir
Hver á að vera tilgangurinn með því að sameina sveitarfélögin? Reykjavík ræður mjög ílla við stjórnun á sínu batteríi alveg án tillits til hverjir eru í stjórn. Annars hef ég tekið í umræður um þessi sameinigarmál m.a. við borgarfulltrúa Reykjavíkur. Einn þeirra sagði að þetta væri fyrst og fremst tilfinningamál. Ég spurði fyrir um nafnið og hann taldi það ekki stóra málið. Þá lagði ég til að við tækju nöfnin Kópavogsbær og Reykjavíkurborg og sameiginlegt sveitarfélag héti Kópavogsborg.
Sigurður Þorsteinsson, 28.2.2010 kl. 13:39
Mér sýnist þú frekar sammála mér en ósammála. Hvernig atvikaðist það að fámennt höfuðborgarvæði taldist átta sveitarfélög? Ég held að t.d. væri hægt að samræma strætisvagna og sorphirðu betur ef sveitarfélagið væri eitt, að ekki sé minnst á öll skipulagsmál, uppbyggingu hverfa, útdeilingu lóða o.þ.h.
Ég hef heyrt menn segjast ekki vilja innanlandsflugvöllinn úr Vatnsmýri og til Keflavíkur af því að þá tapist störf í höfuðborginni (þetta var fyrir hrun) en ég spyr: Vantaði ekki (og vantar enn) störf á Suðurnesin? Má aldrei hugsa út fyrir eigin þúfu?
Ég held að allt skipulag yrði betra ef við 200.000 hræðurnar tilheyrðum einu skipulögðu og vel starfandi sveitarfélagi. Þó að mönnum hafi verið mislagðar hendur í litlu Reykjavík er það ekki nauðsynlega ávísun á klúður í millistórri höfuðborg.
Svo vil ég að landið verði eitt kjördæmi - bara svo að það komi líka fram ...
Berglind Steinsdóttir, 28.2.2010 kl. 14:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.