Fimmtudagur, 4. mars 2010
Hannað og bannað í umhverfinu
Þegar sumir tala um list hugsa þeir augljóslega - sést á hugsanabólunni sem birtist fyrir ofan þá - um heysátur sem morkna, brauð sem myglar í útstillingu, abstrakt málverk sem segir þeim ekkert, niðurgreidda tónleika hjá Sinfóníuhljómsveitinni eða annað sem þeim finnst auðvelt að gagnrýna. Ég vildi að nú hefðu fordómarnir tekið af mér völdin en því miður veit ég með vissu að þetta er tilfellið með suma. Ég gæti nafngreint nokkra einstaklinga en sé ekki tilganginn með því.
Mér finnst sum list líka hrikalega óspennandi, er ekki listlærð og hef smekk sem er sennilega bara andskotanum persónulegri. Og margir gætu sagt það sama og ég.
Ég renndi yfir lista þeirra sem fá listamannalaun 2010, vel að merkja kr. 266.737 á mánuði, og þekkti flesta rithöfundana, nokkuð margt sviðslistafólk og örfáa aðra. Ekki persónulega, heldur bara sem listamenn. En ætli háværustu gagnrýnendurnir hafi gefið sér tíma til að velta fyrir sér hvað þessar 200 manneskjur gera ár hvert?
Allt í umhverfi okkar er skapað og hannað á einhvern hátt. Bollinn sem við drekkum kaffið úr, sófinn sem við sitjum í, skórnir sem flytja okkur út úr húsi, já, og innanhúss líka, settið sem blasir við í sjónvarpinu, 500-kallinn, sundlaugin, búningsklefarnir, sundbolurinn, Benzinn, gleraugun, vefsíðurnar, bókakápurnar, vörumerki o.s.frv.
Við kveikjum á útvarpinu og hlustum á lag sem einhver hefur samið og útsett, komið í útgáfuhæft form og hannað umbúðirnar utan um. Rétti upp hönd sá sem vill tónlistarlausan heim.
Öll þessi færni á bak við alla þessa framleiðslu krefst þekkingar og vinnu. Menn þurfa að reka sig á, sumir verða aldrei frambærilegir, sumir verða aldrei mér að skapi en heilt yfir þokar þróun í listsköpun og hönnun okkur fram á veginn.
Jakob Frímann mætti í Ísland í bítið í morgun og sannfærði mig að auki um hagrænt gildi t.d. tónlistar sem endurspeglast í hinni árvissu Iceland Airwaves tónlistarhátíð sem laðar til landsins fjölda ferðamanna sem kaupa gistingu og ýmsa aðra þjónustu.
Mín vegna má alveg gagnrýna listamannalaunahafa. Á þeim hef ég enga sérstaka skoðun en ef valið ræðst af klíkuskap finnst mér hann jafn ömurlegur og annars staðar. En trúlega verður huglægi þátturinn alltaf með í svona vali. Í síðustu viku fékk göngubrú yfir Hringbraut verðlaun frá Steinsteypufélagi Íslands fyrir framúrskarandi steinsteypt mannvirki á síðustu fimm árum. Mér finnst þessi brú skemmdarverk og á því miður oft leið þarna yfir þetta forljóta ferlíki. Hef ég rangt fyrir mér? Hefur Steinsteypufélag Íslands rangt fyrir sér? Hafa menn spurt sig um kostnaðinn þar? Hafa menn áhyggjur af bruðlinu og hvort útkoman sé þeim að skapi?
Nei, sannarlega mega menn gagnrýna ef þeir rýna til gagns. Ég vildi bara óska þess að þeir myndu að allur andskotinn sem við höfum fyrir augunum og í eyrunum dagana langa er hannaður af kunnáttufólki.
Svo hef ég vitaskuld skoðun á Þráni og Þráni en eitthvað verður maður að hafa fyrir sig ...
Athugasemdir
Já, Jakob var góður í morgun. Leiðrétti heilan haug af misskilningum.
Mér þykja báðir Þráinnarnir skemmtilegir
Sigga Lára (IP-tala skráð) 4.3.2010 kl. 21:18
Ég held að annar Þráinninn sé hannaður ...
Berglind Steinsdóttir, 4.3.2010 kl. 21:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.