Þriðjudagur, 9. mars 2010
Styrkbeiðni frá Reykjavíkurborg
Þegar ég kom út í (láns)bílinn minn áðan sá ég að styrkbeiðni frá Reykjavíkurborg hafði verið smokrað undir rúðuþurrkuna. Ég er bóngóð og ætla að styrkja borgina um 2.500 krónur en jafnframt ætla ég að kvarta yfir því að jafnræðis skuli ekki gætt. Að minnsta kosti hér.
Þegar ég kom til baka var annar bíll í stæðinu sem ég hafði lagt ólöglega í. Þar eru bílar næstum alla daga og öll kvöld. Bílum er lagt upp á gangstétt, þeim er lagt þvert á akstursstefnu, þeim er lagt á öllum mögulegum götuhornum. Og ég sá enga miða í plasti með blárri rönd. Samt veit ég þess dæmi að bíll hafi fengið stöðubrotssekt á föstudagskvöldi þannig að einhverjir starfa fram eftir.
Mér er ánægja að því að láta þetta lítilræði renna til Bílastæðasjóðs en fyrst hann er í fjáröflun ætti einhver að benda honum á að Þingholtin eru matarkista.
Svo mætti borgin bæta almenningssamgöngur því að ég þá hefði ég t.d. ekki þegið (láns)bílinn. Og þá væri ekki eins tilfinnanlegur skortur á bílastæðum.
Athugasemdir
Já, vá! hvað það mætti taka skurk í bílum sem leggja upp á gangstétt svo ekki er einu sinni möguleiki fyrir gangandi vegfarendur að komast fram hjá. Ég skal taka það að mér (ókeypis) að sekta bíla í Hlíðunum!! Þar mætti einnig smella miða á nokkra sem leggja ítrekað yfir hjólastíginn (þann eina í borginni!). Ég skil ekki af hverju ég hef ekki fengið svona styrkjahefti fyrir löngu til að skrifa beiðnir út, bílastæðasjóður væri þá feitari en sjóðir Jóakims aðalandar!
Ásgerður (IP-tala skráð) 9.3.2010 kl. 23:26
Ég skal mæla með þér.
Berglind Steinsdóttir, 10.3.2010 kl. 20:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.