Þriðjudagur, 16. mars 2010
Lissabon-sáttmálinn ... og önnur samkomulög!
Ég fékk það forvitnilega verkefni í Evrópuþýðingum í HÍ að segja stuttlega frá Lissabon-sáttmálanum. For helvede, ég vissi ekki neitt og þegar ég fór að lesa mér til gat ég varla fundið hlutlægar upplýsingar.
Staðreyndir eru þó að Lissabon-sáttmálinn er afsprengi stjórnarskrár Evrópusambandsins, þeirrar sem Frakkar og Hollendingar höfnuðu í þjóðaratkvæðagreiðslum 2004. Margar aðrar þjóðir afgreiddu stjórnarskrána í gegnum þingin sín en Írar, hahha, héldu þjóðaratkvæðagreiðslu tvisvar, sögðu nei sumarið 2008 og svo já 2. október 2009.
Samkvæmt sáttmálanum munu nú aðildarríki með góðu móti geta sagt sig úr Evrópusambandinu ef hugur þeirra stendur til þess. Það var áður illmögulegt og aðeins Grænland hefur gert það (er það ekki örugglega staðreynd?).
Sáttmálinn er gríðarlegur hellingur af blaðsíðum en ég giska á að flestir lesi bara útdráttinn. Sáttmálinn er fyrst og fremst viðbætur við eldri sáttmála og vandlesinn (að mati þeirra sjálfra, sýnist mér) eins og aðrir sáttmálar.
En er treaty ábyggilega sáttmáli? Skv. ordabok.is er treaty bara milliríkjasamningur eða samkomulag. Snara gefur reyndar líka upp sáttmála. Alltaf að draga heimildir í efa og leita fanga víðar. Mér finnst reyndar skemmtilegt að sjá Amsterdamsáttmála og brusselyfirlýsingu í orðabókinni (ósamkvæmnin leynist víða). Svo tala menn um Rómarsáttmála og Maastricht-sáttmála þannig að kerfið í samsetningunni er vandséð - svona eins og Lissabon-sáttmálinn er vandlesinn.
Kannski rétt að halda því til haga að ég hef enga eigin skoðun á sáttmálunum og varla Evrópusambandinu. Umræðurnar hafa verið svo huglægar að staðreyndir liggja dálítið á milli hluta. Sjáið bara Heimssýn annars vegar og sendinefnd ESB á Íslandi hins vegar. Svo má glugga í Örlyg Hnefil (Jónsson?) sem veltir fyrir sér stöðu Íslands á hliðarlínunni og Hjörleif Guttormsson sem hefur áhyggjur af miðstýringunni. Ég tek þó fram að hvorugur þjáist af ofstæki, þeir standa bara hvor fyrir sína skoðunina.
En ég skráði mig ekki í þetta námskeið sem undirbúning fyrir starf í utanríkisráðuneytinu. Ég skráði mig vegna áhuga míns á þýðingum. Og get ekki kvartað.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.