Skítt með söguþráðinn

Í tilefni dagsins ákvað ég að skella mér á Kóngaveg eftir Valdísi Óskarsdóttur. Fleiri fengu þessa góðu hugmynd og það var vel hálft í stóra salnum í Háskólabíói. Það finnst mér kostur, einkum ef mynd er fyndin, hlátrasköll njóta sín betur í fjölmenni.

Og mér fannst gaman. Mér sýnist hún eiga að fara á erlendan markað líka og velti fyrir mér hvort hún þjóni sem kynning á íslenskum veruleika. Ég þekki hann þá ekki, veruleika hjólhýsahverfis (í Munaðarnesi?) þar sem menn hafa lifibrauð sitt af rukkunum, vafasömum sektarinnheimtum og enn vafasamari viðskiptaháttum.

Kristbjörg Kjeld er óbrigðul og glansaði alveg sem amman með gæluselinn. Hins vegar komu mér skemmtilegast á óvart Björn Hlynur Haraldsson og Sigurður Sigurjónsson, svo gjörólíkir því sem ég hef áður séð til þeirra. Mér fannst bara ekki veikur hlekkur í leiknum, hreinskilnislega fannst mér handritið hins vegar dálítið slitrótt, eiginlega sketsar en samt drógust persónurnar skýrt upp. Við fylgjumst með nokkrum dögum í þessu dularfulla samfélagi þar sem átökin vantar ekki, togstreitu, sprenghlægileg tilsvör, skrautlega karaktera - og dramatískan hápunkt. Nú, hvað vantar þá? Hmm, [hér rýkur upp úr höfðinu á mér], bakgrunnurinn teiknast alveg í tilsvörunum, Senior sem hrynur með bönkunum og flýr úr borginni, grunnyggnin hjá Sally sem kemst þó á snoðir um að Senior geti hætt leitinni að sínum innri manni, Junior sem var listadansari, útlendingurinn (Rupert?) sem átti mjúkan innri mann þegar hrjúfa yfirborðið var skafið ofan af, Ray og Davis sem voru svo ólíkir en áttu sitthvað sameiginlegt o.s.frv. [man ekki nöfn á fleiri karakterum].

Jamm, þetta voru smágos og talsverðar hræringar út í gegn en ekki bara lokaroka.

Fjórir hlátrar af fimm.

F.v. Nanna Kristín Magnúsdóttir, Daniel Bruhl og Kristbjörg Kjeld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband