Sunnudagur, 18. apríl 2010
Kötlugos 1755
Svo mæltu Eggert og Bjarni 1756:
Þegar við vorum á heimleiðinni hinn 6. október yfir Síðu og Álftaver, skall á okkur um kveldið niðaþoka með miklu öskufalli, en sólskin hafði verið um daginn og heiður himinn yfir þokumekkinum. Vindur var á og nokkurt frost. Askan kom frá Kötlugjá, og réðum við það af öskufallinu, að hún væri enn á ný tekin að gjósa. Loks rakst þó fylgdarmaður okkar í myrkrinu á Herjólfsstaði, stóran eyðibæ. Daginn eftir var eitt hið leiðinlegasta veður, sem við höfðum lent í. Enda þótt himinn væri kollheiður og sól skini, var þokan samt svo svört, að við sáum aðeins örfá skref frá okkur. Mistur þetta stafaði af rauðgrárri ösku, og þar, sem hún komst í koffort okkar, varð allt svart í þeim. Askan smaug einnig gegnum föt okkar og inn á okkur bera. Við urðum svartir í andliti, og til sönnunar því, að við urðum að anda henni að okkur, hvort sem það var okkur ljúft eða leitt, var það, að allt, sem við hræktum úr okkur, var kolsvart. Hestarnir gátu hvorki bitið né haldið augunum opnum. Tveir þeirra urðu blindir, af því að augnlokin greru saman. Við neyddumst að lokum til að fara inn í hinn auða bæ.
Það er bara svo undarlegt að sitja í Reykjavík, 150 kílómetra vestur af eldgosi sem gerir flugfarþegum um hálfa Evrópu lífið leitt, og hafa ekki náttúrufræðilega hugmynd um það, heldur allt sit vit úr fjölmiðlum. Fyrir tveimur öldum voru samgöngur lélegar og fjarskiptatæknin hálfu lélegri þannig að menn á Vestfjörðum þurftu ekki að vita af náttúruhamförum annars staðar á landinu fyrr en ári síðar ef því var að skipta.
Og vestur í Bandaríkjunum - sem ósköpin bitna ekki á - kennir hundtrúaður Limbó Bandaríkjaforseta um! Hefur sitt litla vit úr misvitrum fjölmiðlum og frá prítvatguði sínum.
Ég vorkenni mest hestum sem súrnar í augum og fuglum sem vita ekki hvort þeir eru að koma eða fara. Og ég finn líka til með þeim sem eru búnir að vinna í sveita síns andlitis við að rækta upp tún og sjá þau núna verða undir drullu og íshröngli. Og fyrst ég er farin að opna mig svona verð ég að bæta við að ég er gallsúr fyrir hönd ferðaþjónustunnar á Íslandi sem og á meginlandi Evrópu sem situr uppi með pantanir og fólk sem kemst ekki til að standa við þær.
Svo eru nokkrar dagsetningar sem leiðsögumenn verða að leggja á minnið:
30. desember 2009
5. janúar 2010
6. mars 2010
20. mars 2010
12. apríl 2010
14. apríl 2010
Hangir þetta ekki allt saman við hana Ísbjörgu og aðrar syndir?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.