Þriðjudagur, 18. maí 2010
Á höggstokkinn
Ég kann að leggja saman, draga frá, margfalda og deila. Ég lærði hvorki diffrun né heildun og hingað til hef ég plumað mig án þess. En nú [hægra handarbak að vinstra gagnauga] veit ég ei meir, ei meir.
Ég - nú legg ég mig á höggstokkinn - hélt að þegar kyrrsettu eignirnar myndu innheimtast rynnu þær í ríkissjóð. En nú heyri ég á mér gáfaðra fólki að þær renni til kröfuhafa bankanna - og kenningu um að kröfuhafar bankanna séu skuldararnir, þ.e. þeir sem peningarnir verða teknir af.
Sum sé, sr. Jón tekur 2.400 milljarða að láni og geymir undir kodda á Falklandseyjum. Svo er honum stefnt fyrir dómstóli í einhverri Jórvík, játar sig sigraðan enda kostar milljón dollara að snerta hurðarhúninn, skrifar lista yfir eignirnar, lætur þær af hendi - og tekur svo við þeim sjálfur, óbreyttur Jón.
Ég engist á grefilsins höggstokknum. Ég sver að ég hélt að það þyrfti ekki að skera stærri möskva á öryggisnet velferðarkerfisins ef peningurinn innheimtist.
Athugasemdir
Ég er svo lítið fyrir samsæriskenningar, og held að þetta sé aðeins of mikil einföldun. Það getur ekki verið að þeir kröfuhafar bankans sem er með forgangskröfur séu einungis þeir kyrrsettu.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 19.5.2010 kl. 11:01
Nei, ekki ég heldur, segir hin áhrifagjarna. Treysti mér ekki í heita pottinn í kvöld svo ég yrði ekki fyrir frekari áhrifum.
Berglind Steinsdóttir, 19.5.2010 kl. 21:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.