Mánudagur, 24. maí 2010
Vantar Sundabraut?
Í sjálfhverfni minni svara ég: Já. Hins vegar þarf hún mín vegna ekki að vera bílbær, mér nægði að hægt væri að ganga hana eða hjóla.
Ég fór í mikla gæðagöngu um Grafarvoginn í fyrradag. Við byrjuðum sem hópur við Ingunnarskóla og gengum í gegnum Þúsaldarhverfið, um móann og ýmislegt grænt og gómsætt. Svo skildi leiðir í Bryggjuhverfinu þegar við vorum búin að svekkja okkur hæfilega á að þar væri ekkert kaffihús. Í Bryggjuhverfinu búa 400-500 manns og þar er engin þjónusta, ekki leikskóli, ekki grunnskóli, ekki verslun, ekki allt rutt í snjóatíðum - af því að hverfið var byggt sem hverfi handa fullorðnu fólki sem þyrfti ekki þjónustu handa börnum. Hins vegar er það bara hálft, það stóð til að byggja annað eins sunnan megin við það sem þegar er. Og mér skilst að Björgun hafi líka átt að heyra sögunni til.
Áður höfðum við rætt um tengingar milli Bryggjuhverfis og Vogahverfis og þegar allir höfðu talað nægju sína arkaði ég kokhraust af stað - en viti menn, maður þarf að krækja fyrir allan voginn. Það er hvergi hægt að komast yfir hann óblautur.
Fólk sem ég þekki býr í Bryggjuhverfi og vinnur í miðbænum og vílar ekki fyrir sér að hjóla enda leiðin tiltölulega bein. Ef maður hins vegar vildi fara úr Bryggjuhverfinu í Súðarvoginn eða Efstasundið eða Borgartúnið kemst maður alls ekki beinustu leið. Og manni er náttúrlega slétt sama einu sinni á heilsubótargöngu í besta hugsanlega gönguveðri en þetta er fjandakornið ekki hvati fyrir fólk til að ferðast í og úr vinnu fyrir eigin vélarafli.
Ég er ekki hress með skipulagið á þessari leið.
Meðan ég gekk austan megin óssins sá ég hunda leika sér á Geirsnefi og einn þeirra stakk sér til sunds enda afbragðsgott veður. Mér fannst það óboðlegt fyrir mig, veit ekki hvort myndavélin er vatnsheld ...
Í Bryggjuhverfinu líður mér hóflega eins og ég sé í útlöndum.
Athugasemdir
Sá ekki að þú hefði viðkomu í Efstasundinu ?
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 26.5.2010 kl. 11:09
Það var af tillitssemi við íbúa götunnar. Minni hins vegar á viðleitni mína til að vinka þér inn um glugga í Ármúlanum í gær.
Berglind Steinsdóttir, 26.5.2010 kl. 18:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.