Kannski

Við notum mörg smáorð sem hafa einhverja aðra merkingu en þá upprunalegu.

Dæmið sem fer hvað mest í taugarnar á mér er eða. Ég kem á laugardaginn, eða eftir tvo daga. Hann fékk hæstu einkunnina, eða 9. Þetta munaði fjórðungi, eða 25%. Fólk meinar: þ.e.a.s. Samkvæmt mínum málskilningi aðgreinir eða eitthvað tvennt. Ég kem á morgun eða hinn. Hann var með 8 eða 9. Og hvað þýðir: Hún greindist með parkinson, eða taugasjúkdóm?

Ég get ekki notað allavega í merkingunni a.m.k., fyrir mér er það á ýmsa vegu. En ég er orðin nokkuð flink í að leiða það hjá mér því að ekki vil ég baka mér óvinsældir hvarvetna ...

Þegar fólk segist ætla að hugsa sig um hvort það komi í boð eða leyfi börnunum að gera eitthvað um helgina þýðir það yfirleitt nei, bara í aðeins lengra máli. Kannski nei takk.

Svo komst kannski til tals nýlega. Formaður í félagi sagðist kannski vera með tvær tilkynningar þegar fundarstjóri spurði hvort einhver vildi taka til máls undir liðnum um önnur mál. Og fundarstjórinn lagði skemmtilega út af því hvort hann vildi þá kannski ekki vera með þær. Eða hvort hann væri kannski með þrjár tilkynningar.

Ég var hreint ekki ein um að hafa gaman af þeirri orðræðu.

Og nú velti ég fyrir mér hvort ráðuneytunum fækki kannski ... Eða kannski ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband