Miðvikudagur, 30. júní 2010
Gangan á Akrafjall
Á vef Akranesbæjar er þessi lýsing á göngu upp á fjallið, mjög gagnleg:
Akrafjall og umhverfi þess er sannkölluð paradís fyrir útivistarfólk. Gönguferð á fjallið er tiltölulega auðveld og útsýnið ægifagurt. Fjallið gnæfir eins og útvörður byggðarinnar á Skipaskaga. Það er sporöskjulöguð og formfögur fjallabunga sem stendur á nesinu á milli Hvalfjarðar og Leirárvogs. Talið er að fjallið sé gömul eldstöð, en jökull hafi gengið yfir það og sorfið af því allar hvassar brúnir landmegin, en síðan steypst fram dal sem klýfur það vestanmegin og nefnist Berjadalur. Bungan sunnan í hlíðum dalsins heitir Jókubunga. Eftir dalnum rennur Berjadalsá. Norðan árinnar kallast fjallið Norðurfjall og sunnan hennar Suðurfjall. Sitt hvoru megin dalsins rísa tveir tindar. Heitir sá nyrðri og hærri Geirmundartindur (643 m) en hinn syðri Háihnúkur (555 m). Guðfinnuþúfa er drangur neðan Geirmundartinds. Meginefnið í fjallinu er basalt, en víða eru rauðleit móbergslög milli blágrýtislaga. Greinilegar sjávarmyndanir finnast umhverfis fjallið og í því, þær hæstu ofan við bæinn Kúludalsá í 70 m hæð. Hvalbein hafa fundist í 80 m hæð við bæinn Fellsenda.
Það sem okkur fannst skondið á staðnum var að Guðfinnuþúfa var ekki síðri drangur en Geirmundartindur. Má leggja út af því? Svo er ekki getið um sérstakt áhugamál Skagamanna, mótorhjólaþeytur. Við reyndum að ímynda okkur háværa býflugu en það gekk ekki til lengdar. Ferðin var samt algjörlega vel heppnuð.
Athugasemdir
Ógó flott fjall, sem ég hafði ekki tekið neitt nótis af fyrir ferðina. Svona vanmetur maður fjöll alveg trekk í trekk. Svo er svo gaman að spjalla um daginn, veginn og götuna á leiðinni upp og niður.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 1.7.2010 kl. 08:09
Og uppgötva Hvammstangatengingar.
Berglind Steinsdóttir, 1.7.2010 kl. 08:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.