Þriðjudagur, 6. júlí 2010
Same old, same old
Ég fór í dagsferð sem leiðsögumaður, fékk yfirlit yfir launin, gerði athugasemd við það að mér væru greiddir 10 tímar í dagvinnu, sagði að ég ætti að fá 8 tíma í dagvinnu og 2 í yfirvinnu - og fékk þetta svar:
Venjulega er Gullhringur 8 til 8,5 klst. og ætti því að greiða 8 til 8,5 klst. í dagvinnu fyrir Gullhring en vegna þess að leiðsögumenn þurfa að mæta áður en ferðin hefst og alltaf hleypur á einhverjum mínútum, tíu eða svo, þegar þeir koma tilbaka er ákveðin vinnuregla hér hjá XXX - allavegana í XXX - að greiða fast gjald á virkum dögum fyrir Gullhringinn 10 klst. þannig að í raun ættum við að greiða 8 til 8,5 klst. fyrir Gullhringinn en við viljum koma til móts við leiðsögumenn og greiða þeim fyrir að mæta fyrr og þess háttar þannig að við greiðum fast 10 klst. fyrir Gullhringinn.
Ef við mundum ekki hafa þessa reglu hjá okkur mundum við hafa max 8 klst. en þá munduð þið aldrei frá greitt fyrir að mæta fyrr. En rétt er að dagvinna er max 8 klst. og eftirvinna eftir það. En ef við mundum greiða ykkur eftir því þá fengjuð þið minna greitt fyrir t.d. Gullhring þar sem við þá mundum einungis greiða fyrir ferðina sem Gullhringurinn er. Á þennan hátt viljum við koma til móts við ykkur og greiða ykkur fyrir allar þær klst. sem þið vinnið fyrir okkur - frá því að þið mætið XXX.
Ég þreytist ekki á að undra mig á því að leiðsögumenn sætti sig við að fá ekki greitt eftir kjarasamningum.
Ég svaraði:
Þetta er sérkennileg vinnuregla og mig furðar að leiðsögumenn sætti sig við þessa útleggingu. Ef ekki ætti að greiða fyrir undirbúningstímann á XXX ættu leiðsögumenn að mæta beint í rútuna, er það ekki? Ég var mætt kl. 7:30 og komin til baka kl. 17:20 - af hverju ætti ég ekki að fá greitt fyrir vinnutímann minn?
Ég er líka með vinnureglu, ég vinn ekki fyrir fyrirtæki sem borga ekki a.m.k. eftir kjarasamningum. Ég sé ekki eftir að hafa farið með farþegana af XXX og XXX af því að þeir voru sannarlega skemmtilegir og þægilegir í alla staði en eins og gefur að skilja hefði ég ekki farið ef ég hefði kynnt mér það að vinnureglan ykkar er að borga ekki að lágmarki rétt laun.
Ég bið þig að taka mig af úthringilistanum ykkar því að annars yrði svar mitt eftirleiðis: Sama og þegið, ég ætla ekki að vinna yfirvinnu á dagvinnulaunum sem þið lítið m.a.s. á sem sérstaka greiðasemi.
Svo bið ég sérstaklega vel að heilsa minni kæru XXX sem hefði getað sagt þér að ég brygðist svona við.
Mér finnst ég alveg kurteis og ég er næstum hætt að pirra mig á svona vinnubrögðum sem er kannski ógott því að maður á að veita mótspyrnu þegar meiningin er að hlunnfara mann og greiða ekki einu sinni eftir kjarasamningum.
Ég var fyrir mörgum vikum beðin um að vinna fleiri daga hjá téðum aðila í sumar en ég sagðist ekki vilja ráðstafa stökum dögum svona langt fram í tímann. Það er nefnilega önnur vinnuregla hjá mér, ef ég er búin að segja já hætti ég ekki við af því að eitthvað annað býðst.
Ég eyði bara sumarfríinu mínu í eigið rölt um gresjur landsins.
Athugasemdir
gott svar hjá þér og svo mundi ég segja að bréfið frá XXX mundi vera óskiljanlegt ef maður mundi ekki skilja lélega íslensku og ég mundi líka svara XXX á svipuðum nótum ef ég mundi fá svona greitt.
óþolandi sett upp hjá þeim,... eins og það sé verið að gera þér einhvern greiða,, arrggg
me (IP-tala skráð) 6.7.2010 kl. 22:11
Tölum betur saman í hádeginu á morgun (ef þú kemst út af vinnustaðnum)!
Berglind Steinsdóttir, 6.7.2010 kl. 22:15
Kudos - bara að fleiri brygðust svona við!
Lára Hanna Einarsdóttir, 7.7.2010 kl. 00:38
Og nú bíð ég spennt eftir svari.
Berglind Steinsdóttir, 7.7.2010 kl. 08:49
Oh! Berglind! Þú hefur nú alltaf haft munninn fyrir neðan nefið og þetta er frábært svar hjá þér ... skrifað á skiljanlegri íslensku (meira en XXX) og mjög skýrt! Ég er svooooo ánægð með þig.
Ásgerður (IP-tala skráð) 7.7.2010 kl. 09:49
Fékk gott svar í dag með leiðréttingu - fyrir mig og hina leiðsögumennina.
Berglind Steinsdóttir, 7.7.2010 kl. 18:38
Það var nú gott að viðkomandi fyrirtæki áttaði sig á því að það fengi ekki frambærilega leiðsögumenn í ferðir sínar með áframhaldi á þessum vinnubrögðum, greiðslur samkvæmt samningum eru jú lágmarksgreiðslur...
Auður Herdís Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 7.7.2010 kl. 19:55
Já, satt er það en ég vil líka að hún (og öll deildin) njóti sannmælis þótt ég vilji ekki segja hvaða fyrirtæki þetta var. Hún tók ábendingunni af kvenmennsku. En djö er leiðinlegt að þurfa alltaf að vakta þetta. Og fá svo samt innan við 11.000 útborgað fyrir heilan dag.
Berglind Steinsdóttir, 7.7.2010 kl. 22:09
Ég er líka búin að vera að nagast svolítið í hvíldartíma í sumar. Ótrúlegt hvað fáir virðast kannast við það fyrirbæri. Dæmi ég ætti að sækja farþega til Kef sem lenda kl 01:55 koma þeim á hótel og fara sjálf heim, ég er komin heim kl 03:30 og á að vera mætt aftur í Hafnarfjörð (úr Rvk) kl. 08:30 og vera á ferðinni til kl. 18-19 amk. Ég fæ fýlusvip eða frasann þá verð ég bara að fá annnan leiðsögumann í transferið. Ég neita þessu nema að ég fái 6 klst aukalega daginn eftir eða 50% álag sem er samkvæmt samningum.
Sóla (IP-tala skráð) 18.7.2010 kl. 16:39
Já, það þyrftu fleiri að vera duglegir að standa á rétti sínum. Við höldum ótrauðar áfram.
Berglind Steinsdóttir, 19.7.2010 kl. 21:39
Stoltur af ykkur stelpur (ég er það svosem alltaf ).
Börkur Hrólfsson, 29.7.2010 kl. 22:47
Svo afþakkaði ég vinnu á frídegi verslunarmanna með vísan í lág laun, væri ekki til í að fórna helginni upp á þau kjör. Sú sem hringdi sagðist ætla að skrifa þetta hjá sér og þakkaði mér kærlega fyrir. Grunsamlega þakklát reyndar. Kannski að hæðast, hmm.
Berglind Steinsdóttir, 31.7.2010 kl. 08:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.