Miðvikudagur, 7. júlí 2010
Veður og klætt fólk
Í gær sannreyndi ég að það er ekkert til sem heitir vont veður, bara misjafnlega (vel) klætt fólk. Ég var í hópi þess fólks sem var ekki klætt eftir veðri (sú eina reyndar) og afsaka mig með því að ég fór í tvær heimsóknir áður en gangan brast á og þess vegna kaus ég að trúa því að veðrið yrði betra og þurrara þegar á reyndi.
En - en mér var alveg sama þótt ég blotnaði. Þegar ég kom heim reif ég mig úr öllu og henti beint í þvottavélina. Hins vegar trúi ég á illsku vonda veðursins ef maður skyldi - jafnvel vel búinn - ætla að lúra í tjaldi dögum saman í rigningu. Líka get ég krossbölvað miklu votviðri ef maður er á ferð í rútu, jafnvel á malarvegum þar sem eðjan sullast upp um allar rúður og maður sér ekki út - og svo fer maður út og svo kemur maður blautur inn, fer úr blautri yfirhöfninni og vætan þéttist innan á rúðunni - og reynið að segja mér að þetta sé ekki dálítið og allt að því talsvert leiðinlegt.
En það var sko ekkert leiðinlegt að slæpast í góðum félagsskap í rigningu í Reykjadalnum í gær. Bara gaman. En grey fólkið með gleraugun og engar vinnukonur á rúðunum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.