Þriðjudagur, 20. júlí 2010
317.630
Þar sem ég stóð í guðdómlegu veðri við Laugarvatnshelli í gær og lagði spurningar fyrir nemendur í breskum piltaskóla varð ég fyrir þeirri undarlegu reynslu að kona vék sér að mér og leiðrétti svarmöguleikana sem ég gaf. Ég þrætti lítillega við hana og þakkaði henni svo fyrir.
Ég held að ég sé bæði of kurteis og of umburðarlynd.
Ég hef heldur aldrei lent í svona áður.
Fyrsta spurningin var um mannfjölda. Ég hafði sagt þeim á fyrsta degi að hér byggju 317.000 manns og að ég námundaði upp í 320.000. Margir tala um 300.000 hef ég heyrt og ég hef líka heyrt að fólk talar um Hvannadalshnjúk sem 2000 metra tind. Konan sagði að 1. desember sl. hefðu búið hér 309.000, ég væri augljóslega með töluna frá því fyrir hrun.
Maður hefur val um ónákvæmni.
Svo fletti ég upp á hagstofuvefnum eins og ég gerði áður en ferðin hófst. Og Hagstofan heldur því fram að 317.630 manns hafi búið hér 1. janúar sl. (uppfært reyndar 16. mars). Árið áður bjuggu hér 319.368.
Auðvitað getur maður haft skoðanir á og efasemdir um opinberar stofnanir en maður verður að miða við einhverja tölfræði sem þær gefa út.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.