Mánudagur, 16. ágúst 2010
Geysir, Dettifoss, Reynisfjara, vörður o.fl.
Það er gaman að segja frá því að Kári Kristjánsson stendur vaktina með sóma í Laka, a.m.k. nú í sumar. Ég hef að vísu bara komið þangað tvisvar en í bæði skiptin spratt hann út úr bílnum, tók sér stöðu við upplýsingaskiltið og leiðbeindi komumönnum. Bæði útskýrði hann leiðina sem best væri að fara og brýndi fyrir mönnum að gróðurinn væri viðkvæmur og að við þyrftum að halda okkur við stígana. Hann býr í Blágili og er alveg vakinn og sofinn.
Þetta vekst upp fyrir mér þegar ég hlusta á Ólöfu Ýrr ferðamálastjóra og Baldvin Jónsson leiðsögumann (ekki í leiðsögumannatalinu) tala í Kastljósinu um gjöld, aðbúnað og öryggismál á fjölsóttum ferðamannastöðum. Ég er alveg á því að aðbúnaður þurfi að batna og ég get ekki skilið að peninga skorti. Peningur kemur inn á þessum stöðum og það ætti að vera hægt að nota hann í stígagerð - og landvörð sem t.d. varar fólk við gáleysislegri hegðun. Og mætti ég biðja um að fólk hætti að henda klinki í Blesa, það væri nær að skilja eftir gild greiðslukort eins og dæmi eru um í Flosagjá ...
Athugasemdir
það er ótrúlegt að hlusta á sömu réttlætingarnar ár eftir ár. Lágmarksúrbætur á Geysissvæðinu myndu ekki kosta milljónir. Ef það væri í það minnsta stór og læsileg viðvörunarskilti sem brýndu fyrir fólki að vatnið væri heitt. Það finnst mér vera lágmarkskrafa.
Auður Sig (IP-tala skráð) 17.8.2010 kl. 11:17
Sammála, gagnlegar úrbætur mætti gera fyrir lítið fé. Reyndar vildi ég líka fá landvörð.
Berglind Steinsdóttir, 17.8.2010 kl. 21:33
Jú ég er svo sem sammála því og þess þarf ef gera á eitthvað vel fyrir svæðið, engin spurning. En þegar það er stöðugt verið að skýla sér á bak við fjárskort verður að benda á að uppfylla verður lágmarkskröfu um öryggi, að fólk sé við innganginn upplýst um að svæðið sé hættulegt og það taki ábyrgð á sjálfu sér.
Það er að mínu mati lágmarkskrafa fyrir mestsótta ferðamannastað landsins.
Auður Sig (IP-tala skráð) 17.8.2010 kl. 22:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.