Fimmtudagur, 25. janúar 2007
Einkavæðum ruslið, ha?
Stundum er maður svolítið seinn að taka við sér. Það eru náttúrlega líka þvílík ógrynni í bloggheimum að maður nær aldrei að lesa allt sem þó er forvitnilegt. En í gær ráfaði ég inn á þessa færslu um einkavæðingu bókasafna. Ég held að höfundur hafi áreiðanlega verið að grínast en í ljósi annars sem hann hefur skrifað kann að vera að hann vildi gjarnan framselja bókaútlán og jafnvel bóklestur í hendur fárra.
Hann tiltekur fjöldann allan af rökum fyrir máli sínu og þau eru rekin ofan í hann af lesendum síðunnar (því miður var búið að loka fyrir athugasemdir þegar ég las færsluna).
Ég ætla ekki að leggja orð í þann belg beinlínis, heldur hugsa upphátt um hvort ekki væri hægt að selja aðgang að öðru því sem fólk borgar fyrir með sköttunum sínum, t.d. sorphirðu. Ég veit að hörðustu einkavæðingarsinnar eru á því að mennta- og heilbrigðiskerfið eigi að fá að vera í friði en væri ekki gráupplagt að fá Gísla til að annast sorphirðuna? Þá væri hægt að vigta ruslið og láta okkur borga eftir því hver sóðar mest út. Það er kannski galli á gjöf njarðar að það tæki tíma og orku sem er ekki eytt núna og væri kannski óspennandi vinna. En þið vitið, láta þá borga meira sem eru meiri sóðar. Ég meina, sumir myndu þá kannski henda í tunnuna hjá næsta manni - sem gæti leyst málið með því að fá sér lás - eða í næsta garð, út á götu eða í sandkassann á leikskólunum. Þetta yrði trúlega ekkert ódýrara en þjónustan eins og hún er reidd fram núna - en þeir myndu borga sem njóta, svona að mestu leyti.
Og næsta skref gæti orðið að einkavæða vegagerðina. Ég meina, það er ekki nokkur hemja að þeir sem ganga bara út í búð og til baka borgi fyrir akstur t.d. atvinnubílstjóra. Ég veit ekki hvernig á að mæla þetta nákvæmlega hjá venjulegu fólki en kannski er hægt að vera með viðverumæli í bílunum. Það hlýtur að skipta máli hvort verið er að keyra Hringbrautina beint eða eina af slaufunum, já, mislæg gatnamót.
Sveitarstjórnarmenn nýtast líka misvel. Sumir opna varla munninn, hafa helst engar skoðanir og hljóta þá að vera verðminni. Sumir þingmenn eru bestir í að hlýða og ýta bara á réttan atkvæðagreiðsluhnapp eftir boðum að ofan - hver nýtist manni best? Má maður kannski gerast áskrifandi að kjörnum fulltrúa, já, og bara borga það sem það kostar?
Og leikhúsið, maður lifandi. Nú þegar hér eru menn sem ráða við að borga milljón eða 70 fyrir innfluttan skemmtikraft er algjör óþarfi að vera með niðurgreitt leikhús. Sýning á litlu leiksviði þar sem bara komast 70 áhorfendur verður að kosta meira en sýning á stóra sviðinu. 100 þúsund kall gæti dugað fyrir einstakri sýningu en ekki ef við reiknum út kostnað við æfingar. Færri sýningar kosta meira en við vitum ekki fyrr en sýningin fer af fjölunum hversu oft hún var sýnd.
Hjálp, íþróttir. Hver ætlar að borga fyrir handboltaleikinn sem er núna í sjónvarpinu?
Svei mér ef ég kristnaði mig ekki bara sjálf. Höfum bókasöfnin og strætóana á framfæri skattsins. Þetta jafnar sig.
Eitt að lokum, ég skil ekki, ég skil bara alls ekki hvernig stendur á því að bankarnir sem eru svona frábærlega reknir af einkaaðilum láta ekki viðskiptavinina njóta þess.
Es. Ég gleymdi kirkjunni! Er hún ekki gengin í björg? Hvað kostar skírn raunverulega?
Athugasemdir
Já, kannski væri hægt að einkavæða lýðræðið. Bjóða út stjórn ríkisins, hagstæðustu fjárlögum yrði tekið af þjóðinni og samþykkt að fela t.d. Kaupþingi stjórn ríkisins í ár.
Kjartan Hallur (IP-tala skráð) 25.1.2007 kl. 21:30
hurru Berglind ég tel að þú þurfir að fá smá spark í rassin, það vantar orðið háðung og allan brodd í þig nú orðið. Tjáðu þig nú frá dýpstu rótum hugans og notaðu nú þau orð sem upp koma þaðan.
Egill (IP-tala skráð) 25.1.2007 kl. 21:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.