Sunnudagur, 3. október 2010
Hófstillt mannréttindi
Ég er hætt að skilja hugtakið mannréttindi.
Snara segir:
tiltekin grundvallarréttindi hverrar manneskju, óháð þjóðerni, kynþætti, kyni, trú og skoðunum (einkum réttur til frelsis, öryggis og jafnræðis)
Hjálpar mér ekki mikið.
Vísindavefurinn leggur heldur ekki lóð á vogarskálarnar:
Ein hugmynd manna um mannréttindi er að þau séu óháð stund og stað, til dæmis óháð þeirri samfélagsgerð eða þeim efnahag sem fólk býr við. Hinn siðferðilegi skilningur á mannréttindahugtakinu samrýmist ágætlega þessari hugmynd. En ef við einskorðum okkur við þennan skilning verður niðurstaðan sú að einungis örfá réttindi séu réttnefnd mannréttindi. Ef til vill stæðu ekki eftir nema þau réttindi sem nefnd eru í þriðju grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna: rétturinn til lífs, frelsis og mannhelgi.
Ég skil að allar útgefnar lýsingar þurfa að ná yfir allt sem fólk getur hugsað sér. Þess vegna er skilgreiningin svo víð.
Eru það brot á mannréttindum að láta stefna sér fyrir dómstól? Getur einhver stefnt manni fyrir að vera neikvæður yfirmaður? Klæðast ekki tískulitunum? Lykta illa? Ég er ekki að reyna að snúa út úr, ég er að velta fyrir mér hinni hárfínu línu og hvenær manni væri meinað að ákæra annan.
Eru það brot á mannréttindum að fá ekki vinnu? Fá ekki vinnu við hæfi? Þurfa að sætta sig við samningsbundin laun en fá ekki markaðslaun? Fá ekki að vinna þá einu vinnu sem býðst í sveitarfélaginu? Horfa upp á greifa hrammsa til sín atvinnutækifærin? Flytja þau burt? Eru það brot á mannréttindum að sjá aðra fá afskrifaðan 50.000-kall en þurfa sjálfur að borga dráttarvexti þegar viðkomandi hélt í upphafi að jafnt væri gefið?
Eða er það lögbrot? E.t.v. siðleysi?
Í stjórnarskránni er orðið mannréttindi aðeins notað einu sinni, í 65. gr.:
Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Er bilið svona mjótt eða nota margir orðið bara í athugunarleysi?
Það er eins og með orðin einelti og þunglyndi sem margir fleygja inn í umræðuna án þess að vita hvað þau fyrirstilla. Það upplifði ég sem kennari.
Og rétt í lokin verð ég að viðurkenna að mér fannst Finnbogi Vikar hljóma í Silfrinu eins og hann vissi hvað hann væri að segja. Það var ígildi margra langra bjartra sumardaga hvað hann var æsingarlaus og skýrmæltur.
Athugasemdir
Ágætis skilgreining á því hvað eru mannréttindi er m.a. í stjórnarskránni. Auðvitað má ýmsu við bæta og útfæra nánar.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 7.10.2010 kl. 15:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.