Listamenn eru ekki einsleitur hópur

Ég fór í 100 manna hópi í Hafnarborg í gær þar sem sýningin Að elta fólk og drekka mjólk hangir uppi. Ég hafði gaman af henni, ég er reyndar gamall aðdáandi húmorsins hjá SÚM og Sigurður Guðmundsson á mig með húð og hári síðan ég fletti bók um hann sumarið 2001 (hún var svona löng). Ég man eftir húsi sem hann smíðaði á röngunni, gluggatjöldin blöktu utan á og málverk héngu á útveggjunum. Þetta var lítið hús. Myndin líka. Eða var þetta kannski Hreinn Friðfinnsson? Upplifunin var einlæg hvaða SÚM-ari sem átti í hlut.

Í Hafnarborg er ljósmynd af Sigurði sjálfum að skrifa í minnisbók sitjandi við borð og hesti sem hnusar af borðinu. Ég get ekkert útskýrt af hverju mér finnst þetta skemmtilegt. Svo er t.d. verk eftir Erling Klingenberg sem er gert úr 100 100-króna peningum. Það lítur út eins og koparheili og heitir My Mind Makes Money.

Uppi er síðan heil stofa tileinkuð Snorra Ásmundssyni og þar var mér stórskemmt.

En í rauninni finnst mér ekki skipta öllu máli hvernig einstakar listasýningar eru á listasöfnum. Obbinn af list er í nánasta umhverfi okkar alla daga og blasir við okkur í stólum, bókakápum, fartölvum, eldhúsinnréttingum, sjampóbrúsum, baðvigtinni - allir þeir sem hanna hluti sækja sér menntun og hugmyndir eitthvað.

Þegar menn frussa á orðinu listamenn held ég að þeir séu almennt að tala um tvívíða myndlist sem hangir á listasöfnum. Og mér finnst allt í lagi að hún sé ekki öllum að skapi, ekki frekar en ég fíla ekki ýmsa tónlist og nenni ekki að lesa ýmsar bókmenntir. Og ég kann alls ekki að meta ýmsa list á listasöfnum eða ýmis leikverk. Skárra væri það. Ég mætti kunna gott betur að meta.

Eftir Hafnarborg fórum við í Salinn og hlustuðum á Regínu Ósk og ég varð ekki vör við annað en að hún mæltist vel fyrir sem og tónlistarmennirnir þrír sem spiluðu með. Ég hugsa að ýmsir hafi kunnað betur að meta sönginn hennar - og kynningarnar - en ég en vá, þegar karlaraddirnar bættust við sönginn leið mér vel.

Mér líður vel með að hugsa þetta og skrifa á sjötugsafmæli Johns Lennons sem er sérstaklega fagnað á Íslandi - var hann alltaf vinsæll?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband