Fimmtudagur, 14. október 2010
Litlar gular sítrónur og/eða saffran
Þótt ég geti ekki metið allar þýðingar allra bóka sem ég les (í þýðingu) reyni ég að gefa þeim gaum. Sérstaklega er ég oft forvitin um titlana því að ef þeir eru góðir geta þeir selt, a.m.k. vakið áhuga og þar með er stundum björninn unninn.
Ég kláraði Sítrónur og saffran í vikunni. Létt og sumarleg lesning, gaman að því. Ekkert að þýðingunni (þýðendum er ugglaust meinilla við orðalagið) en ég bar ekki saman við frumtextann - nema titilinn. Og ég get ekki skilið að Små citroner gula sé þýtt sem Sítrónur og saffran BARA Í TITLINUM. Veitingastaðurinn í bókinni fær þetta nafn, Små citroner gula, og í bókinni sjálfri er staðurinn látinn heita Litlar gular sítrónur.
Ég skil að vandinn felst í því að orðin þrjú eru tekin upp úr ljóði sem er tilgreint í bókinni en ég veðja á að ég hefði þýtt línuna í ljóðinu líka með saffraninu.
Jájá, ég veit, sjálf er ég að þýða bók núna sem einhverjir munu finna ýmislegt til foráttu. Ég vona bara að einhver [samnemandi í HÍ] rýni í mína þýðingu og sendi mér rýnina. Ég vil læra af mistökum mínum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.