Föstudagur, 12. nóvember 2010
Hvar eru t.d. Lilja Þórisdóttir, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Ragnheiður Steindórsdóttir, Guðný Ragnarsdóttir og Kolbrún Pétursdóttir?
Ég hélt ranglega að ég væri að fara að sjá Fólkið í kjallaranum í gærkvöldi. Ég sá Fjölskylduna og þóttist hafa heyrt að stykkið væri þungt.
Það var öðru nær. Það var fyndið þótt það væri fullt af sorg og ömurlegheitum. Aðalpersónan var ógeðfelld að mörgu leyti en sneri við blaðinu stundum, nóg til þess að ávinna sér samúð annarra í fjölskyldunni, nóg til þess að áhorfandi undraði sig á meðvirkninni. Hún var reyndar þjökuð af geðveiki og pilluáti og kannski ekki sjálfri sér lík. Að minnsta kosti átta ég mig ekki á hvort við fengum eitthvað að vita um gæði hennar yngri ára - enda sýningin náttúrlega ekki fullir fjórir tímar.
Engu var haldið leyndu fyrir henni, hún vissi allt og valdi að spila út vitneskjunni þegar henni fannst henta. Allir voru strengjabrúðurnar hennar en auðvitað var hún sjálf líka fórnarlamb.
Hefur annað eins gerst? Já, nýjabrumið var ekki stóri kostur sýningarinnar. En mér fannst handritið fela í sér ýmis óvænt sjónarhorn - enda næstum fjögurra tíma sýning.
Mér hafði skilist - þetta hefur svo mikið með væntingar að gera - að sýningin væri þung og langdregin og bjóst ekki við öðru en langdregnu stofudrama. En ég hló oft og stundum lengi. Salurinn líka, kannski jók það frekar en ella á leikhúsgleðina. Mér hafði líka skilist að Margrét Helga léki rausandi fyllibyttu og hvað segja þær margt gáfulegt - í fjóra klukkutíma? Hún var á sviðinu næstum allan tímann, rausaði stundum en var líka mjög oft með smellin tilsvör. Ég vildi að ég hefði setið nær til að njóta þeirra betur og sjá almennilega framan í fólk.
Fyrir utan hana átti Guðrún Bjarnadóttir stjörnuleik, um að gera að leggja hana á minnið, og Theodór Júlíusson snerti líka við mér. Kannski var það manneskjan í hlutverkinu, ég átta mig ekki á því. Flestir aðrir voru alveg viðunandi og rúmlega - nema þau tvö eða þrjú hlutverk sem ég hefði viljað sjá öðruvísi skipuð. Þess vegna spyr ég um nokkrar leikkonur í fyrirsögn, og gleymi áreiðanlega ýmsum sem hefðu sómt sér vel á sviði Borgarleikhússins.
Ég hef talað við nokkrar manneskjur í dag sem eru fjarri því að vera sammála mér, einkum um eitt stórt hlutverk. Ein var vonsvikin yfir að þetta væri virkilega nýtt leikrit, það virtist 30-40 ára gamalt. En hey, hjörtun eru eins í Súdan og Grímsnesinu og mannlegt eðli breytist ekki svo glatt. Mér finnst bara pínulítið fúlt að vera ekki nógu vel að mér um bandaríska landafræði.
Athugasemdir
Ég sá Gauragang í gækvöldi við sjöunda mann og skemmti hópurinn, sem var á aldrinum 7-75 ára sér afar vel. Margir leikarar fóru á kostum og þar fannst mér Bergur Þór alveg toppa. Sumir leika alltaf eins/svipað, þannig að það er auðvelt að þekkja þá á sviði en ég þurfti að lesa leikskrána til að uppgötva að Bergur var sá sem túlkaði kennarann svo snilldarlega. Hlutverk, sem svo auðveldlega hefði getað orðið klisjukennt - eins og sannaðist á Jóhanni Sigurðarsyni sem lék sinn kennara á mjög hefðbundnum nótum, og mjög Jóalega.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 14.11.2010 kl. 13:27
Góðar fréttir. Reyndar hef ég alltaf haft mikið álit á Bergi og gæti vitnað í hinn löngu gleymda þátt Stutt í spunann í því efni.
Berglind Steinsdóttir, 14.11.2010 kl. 13:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.