Besta bók Árna?

Ég er hóflega hrifin af hástigslýsingarorðum og mér finnst ekki mikið unnið með samanburði við fyrri bækur höfundar. Þess vegna get ég ekki tekið þátt í þeim samanburðarfræðum með Morgunengilinn.

Ég hef undanfarin mörg ár (lengur en tvö) bölvað mönnum sem fara offari, hreykja sér af gróða (sem er allt annað en sanngjörn laun/þóknun, jafnvel hagnaður), reyna að teygja sig til tunglsins og láta sér í léttu rúmi liggja hvernig aðrir koma undan fíkn þeirra í gegndarlausan glaum. Af því að mér finnst ekki eftirsóknarvert að fljúga í þotum helming vökutímans, standa í veislum langtímum saman, standa ofan á annarra manna hausum eða almennt berast á get ég ekki skilið eftirsókn eftir milljörðum. Það litar vitaskuld mína afstöðu, ég veit.

Helsta umhugsunarefni Morgunengilsins finnst mér vera hvort það sé eftirsóknarvert að sýna umburðarlyndi, fyrirgefa og taka ekki reiðina og örvæntinguna út á röngum einstaklingum. Á grunnskólabarnið sem bað ekki um skíðaferð til Bandaríkjanna viku eftir að skólinn byrjaði að gjalda fyrir íburð foreldrisins? Grunnskólabarnið vill kannski frekar mæta í náttfatapartíið með hinum krökkunum. Grunnskólabarnið finnur fyrir óverðskuldaðri andúð vegna þess að mamma vill endilega sýna sig með það upp á arminn í koníaksstofunni í skíðahöllinni á kvöldin.

Hvað veit ég?

Ekkert veit ég um þennan veruleika en ég sver að ég trúi því að börn hinna glæstu og ójarðtengdu hafi goldið þessara himinskautafara. Sjálfsagt hefur þeim mörgum þótt sport í upphefðinni í einhvern tíma. En hvað er mannlegt að þrá? Er það ekki viðurkenning jafningjanna? Er það ekki verðskulduð aðdáun fyrir eigin færni, kímnigáfu eða annað eigið framlag? Er eftirsóknarvert að borða gullslegið rísottó þegar bekkjarsystkinin fá ostaspagettí sem pabbi eldaði með húmor - og á staðnum?

Veit það auðvitað ekki.

Fólk er misjafnt, börn líka. En ég held sem sagt að börnin hafi verið dregin nauðug viljug með í þessar lúxusferðir, ekki endilega liðið vel með það og svo þegar mamma og pabbi brotlenda komast þau ekki svo glatt til baka í gegnum hið þrönga nálarauga með allt fyrirferðarmikla fortíðarglimmerið.

Börn geta verið miskunnarlaus.

Já, nú er ég búin að hafa um bókina mörg orð án þess að vera komin í formálann að greiningu minni. Morgunengillinn er um þetta barn sem eignast allt nema umhyggju foreldra sinna og vináttu jafnaldranna. Og hér skiptir það meira máli að græðgi Ölvers varpar mannhæðarháum skugga á möguleika Margrétar Báru til að pluma sig í skólanum. Ef vel tekst til í bókinni hlýtur fólk að spyrja sig um ábyrgð sína gagnvart eigin börnum, ekki bara íburðarmikla fólkið heldur allir foreldrar og forráðamenn. Má minn sonur pönkast á þinni dóttur fyrir það að pabbi hennar er eilíflega í fréttaljósinu, fyrst fyrir að vera fáránlega ríkur og svo fyrir að hafa tapað þessu fáránlega ríkidæmi? Hvað heyra börnin heima, hvaða leiðsögn fá þau?

Mér finnst bókin vera um þetta. Einar blaðamaður hefur allar klær úti til að afla frétta í blaðið sitt en hann finnur líka til ábyrgðar því að hann veit ekki nema opnuviðtalið sem hann tók við hinn brotlenta hafi hrundið af stað mjög slæmri atburðarás. Við lentum á maganum fyrir tveimur árum, sumir voru betur bólstraðir og standa upp lítt sárir en aðrir eru miklu meira en hruflaðir. Höfundur hefði alveg mátt bíða eitt ár með bókina því að mér finnst alveg á mörkunum að fjarlægðin sé nóg en kannski verður bókin þarft innlegg í hið siðræna uppgjör.

Í mínum lestraraugum er síðan hliðarsagan um rokkhundinn uppfyllingarefni. Kannski er ég ekki nógu mikið á dýptina en ég sé ekki að sú saga bæti neinu við aðalsöguna.

Ég sé að Illugi Jökulsson talar fagurlega um (enda)fléttuna:

Á hinn bóginn geymir bók Árna einhverja óvæntustu og sniðugustu fléttu sem ég hef lengi séð í bók af þessu tagi. Ég var eiginlega alveg steinhissa.

Já, það gæti orðið verkur að kvikmynda Morgunengilinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég veit líka fyrir víst að þessari krakkar hafa verið skildir eftir heima á Íslandi meðan foreldrarnir eru að sýna sig í glæsiveislum og ég veit það líka að þessir krakkar hefðu haft gott af því að fá svolitla athygli frá foreldrunum, þessi fjarvera foreldranna hafði þó nokkur áhrif á námsárangur og mætingu barnanna.

Kennari (IP-tala skráð) 15.11.2010 kl. 19:51

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég trúi þér og held að krakkarnir séu mikil fórnarlömb „uppsveiflunnar“. Í mínum augum er það aðalefni Morgunengilsins. Og verðugt umhugsunarefni.

Berglind Steinsdóttir, 15.11.2010 kl. 20:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband