Breyting á árgjaldi greiðslukorts úr kr. 0 í kr. 26.900

Þær stofnanir sem ég vantreysti hvað mest eru fjármálastofnanir. Nei, ekki hvað mest. Mest. Bankar og verðbréfafyrirtæki. Ég fékk efasemdir um gamla viðskiptabankann minn, Búnaðarbankann, þegar heiti hans hafði verið breytt í skammstafanir og tveir bankastjórar þóttust geta borið sig saman við þorska í úthöfum þótt þeir væru bara gúbbífiskar í plastpoka.

Ég skipti yfir í sparisjóð.

Fyrir tveimur árum kom rangan öll út og maður fékk ekki að ráða næturstað þúsundkallanna sinna. Í óþökk mína var ég flutt yfir í gamla bankann minn sem nú heitir eftir einhverri fagurri goðsögn. Með fylgdu greiðslukort sem mér höfðu verið send eins og jólagjafir til vildarvina. Öll áttu það sammerkt að áskriftin kostaði ekkert ef maður notaði kortið fyrir a.m.k. kr. 25.000 á mánuði til jafnaðar.

Fyrir rúmri viku skoðaði ég yfirlitið í heimabankanum og sá hina forkostulegu línu:

Árgjald                                                                26.900 kr.

Ég lét bankann njóta vafans og sendi tölvupóst á föstudagskvöldi:

Gott kvöld.

Ég sé í heimabanka mínum að Arion ætlar að rukka mig um kr. 26.900 fyrir að vera með Visa e2 platínumkort. Það hljóta að vera mistök sem ég bið þig að leiðrétta hið snarasta.

Á mánudeginum fékk ég tölvupóst og upphringingu með þeirri útskýringu að nýlega hefði árgjöldum verið breytt og þau hækkuð. Ég sagði kortinu þá snarlega upp og mér var lofað að ég yrði ekki rukkuð. Nú sé ég 10 dögum síðar að talan hangir enn inni á yfirlitinu. Ég var að senda tölvupóst en nú er ég orðin svo efins um heilindi bankamanna að ég geri ráð fyrir að þurfa að splæsa í heimsókn í útibúið líka.

Ég veit ekki hvort fólki getur yfirsést svona upphæð á kortinu ef heildarupphæðin verður t.d. yfir kr. 300.000. En sögurnar sem maður heyrir af bankaviðskiptum þessi misserin eru ekki beint til að auka trú manna á þessa starfsemi. Ég hef mikla samúð með þeim sem eiga eitthvað undir skilningi og samvisku bankanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband