Sund í Bláfjöllum

Við systur erum einlægir aðdáendur heita vatnsins og stundum sundlaugarnar í Reykjavík af mikilli samviskusemi. Ég held að ég hljóti m.a.s. að hafa verið hafmeyja í fyrra lífi. Einu þeirra.

Þegar Jón Gnarr fleygði þeirri hugmynd inn í umræðuna að hægt væri að spara dágóðan slatta með því að loka skíðasvæðinu í Bláfjöllum í tvö ár heyrðist víða kvein. Og mín rak upp stór augu. Og eyru.

Ég hef ekki aðgang að forsendunum. Kannski sparast ekki 87 milljónir við þessa aðgerð. Einhverjum búnaði og e.t.v. húsnæði þarf að halda við (manni dettur líka Harpan í hug en það er önnur saga) þótt ekki falli snjókorn af himni og þótt enginn renni sér í brekkunum. Eru menn  á launum hvort eð er? Hvað með tekjur þegar snjóar?

Kannski er hugmyndin um að loka tímabundið vond. En af því að ég hef ekki farið á skíði síðan ég bjó í Þýskalandi læt ég mér það í léttu rúmi liggja. Einhver talaði um að sportið væri svo dýrt fyrir að það væri ekki á færi nema efnafjölskyldna sem keyrðu hvort eð er reglulega norður til að heiðra Hlíðafjallið. Um þetta veit ég ekkert og hef enga skoðun.

Ég fór hins vegar um daginn að velta fyrir mér hvaða þjónustu mér þætti vont að missa. Þá er nærtækt að rifja upp sundið og ég hugsaði að mín vegna mætti opna seinna og loka fyrr, hafa sumar sundlaugar lokaðar suma daga og jafnvel mætti minnka þjónustu bókasafnanna lítillega (sem ég sæki annars líka óhóflega). Það er þó ógáfulegt ef það þýðir að tekjur dragast saman og stöðugildum fækkar.

Lítill borgarfugl hlýtur að hafa setið á öxlinni á mér og hlerað mig - nema hugmyndin sé ekki svo geníal - þetta er svo sjálfsagt (en ég finn ekki fréttina sem ég þóttist heyra í morgun).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband