Sunnudagur, 19. desember 2010
Ökuskattur
Mér er til efs að ég geti orðið sammála hugmyndum um að rukka fólk sérstaklega fyrir að keyra Hellisheiðina eða í uppsveitum Mosfellsbæjar. Í sjálfu sér finnst mér eðlilegt að við greiðum fyrir það sem við notum, og þá hvað sem er, en í fyrsta lagi held ég að innheimtan sjálf gæti kostað, í öðru lagi þarf að bjóða upp á skýran valkost, t.d. öflugar almenningssamgöngur, og í þriðja lagi búum við þrátt fyrir allt í samfélagi manna en ekki forsniðnum kassa með engum leyfðum frávikum.
Ef ég réði öllu mundi ég ekki hika við að taka einokunarvaldið af bensínsölunum og þannig tækist mér strax að þrýsta niður eldsneytisverði til allra. Úr því að við búum við bensínsölueinokun hvort eð er má allt eins hafa eitt ríkisverð og sleppa allri yfirbyggingu og meintri samkeppni. Þá gæti ég lækkað verðið umtalsvert en samt haft afgang til að byggja vegi fyrir. Hins vegar trúi ég því líka að tvöföldun vegarins yfir Hellisheiði mundi auka hraðann og þá á kostnað umferðaröryggis sem fólk þykist bera fyrir brjósti. Þess vegna veldi ég 2+1. Og svo þarf að bjóða upp á strætó út og suður og helst líka jarðlestir. Og ekki rukka 350 krónur fyrir eina ferð allra undir 70 ára aldri.
Og ef við ætluðum að gæta jafnræðis í ökusköttum vegna samgöngumannvirkja, tjah, hvað þyrfti ég þá að rukka marga 7-kalla hjá þeim sem rúlla gegnum Héðinsfjarðargöngin?
Það verður aldrei hægt að rukka upp á aur fyrir það sem fólk fær. 100% jafnræði er ekki til, annars værum við öll jafn falleg og vel innrætt.
Annars er svolítið merkilegt að fréttir af meintum fyrirhuguðum veggjöldum eru ekki fluttar í hlutlausum stíl. Ég leitaði á vefnum hjá RÚV og fann tvær nýlegar, önnur var fyrst og fremst tilvísun í íbúa á Selfossi sem keyrir daglega til höfuðborgarinnar og hin í stjórnmálamann í Árborg sem mislíkar tvískattlagning. Allt í lagi með þau sjónarmið en eru engar almennar fréttir af meintum fyrirætlununum? Kannski er leitarorðið hjá mér ekki nógu öflugt.
Til að öllu sé haldið til haga á ég ekki bíl en slíka græju á hins vegar margt gott fólk í kringum mig.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.