Þriðjudagur, 4. janúar 2011
Lesarinn á ensku
Helsti ljóðurinn á frábærri sunnudagsmyndinni var að hún skyldi ekki vera á þýsku. Ég las Lesarann þegar hún kom út á íslensku 1998 í Syrtlu-útgáfunni og fannst frábær, stutt saga og áhrifamikil. Ég fylgist ekki nógu vel í kvikmyndaheiminum og vissi ekki að hún hefði verið kvikmynduð.
Kate Winslet var aldeilis stórfenglega góð, stráksi líka. En þegar ég hugsa betur um það finnst mér enn meiri synd að hún skuli ekki hafa verið leikin á þýsku - ég veit, þá hefðu hvorki Kate né Ralph verið með - heldur einhverjir góðir þýskir leikarar kannski. Myndin var að öllu leyti þýsk en textinn enskur.
Ég hitti vinkonu mína frá Austur-Þýskalandi á götu í gær og hún sagði mér að í hennar umgangshópi hefðu verið ákveðnir fordómar gegn því að lögfræðiprófessorinn Bernhard Schlink skrifaði bók og þess vegna hefði hún ekki verið lesin í þeim umgangshópi. Ég kannast alveg við svona, en skelfing hafa þau misst af miklu.
Það er vendipunktur í myndinni/bókinni sem ég vil ekki tala um ef einhver sem ég þekki skyldi eiga eftir að sjá myndina eða lesa bókina. Það er þess virði.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.