Laugardagur, 15. janúar 2011
Hreinsun náði mér á endanum
Í kringum Norðurlandaráðsþingið hér í nóvember var heilmikil umræða um Sofi Oksanen. Auðvitað þurfti ekki heilt þing til en hún fékk verðlaun þess ráðs fyrir bók sína, Hreinsun.
Ég eignaðist bókina þá strax og heyrði heilmikið um hana, fannst hún of þykk til að voga mér að lesa hana með öðrum lestrarönnum og byrjaði á henni á jólunum. Eftir fyrstu 30 blaðsíðurnar leiddist mér óhemju, eftir 80 blaðsíður var ég alveg að gefast upp. En þá kom nýtt tímabil, ekki lengur Vestur-Eistland 1992 heldur fyrirstríðsárin og síðan var heilmikið flakkað í tíma. Fólk skýrðist, athafnir þess skildust, dagbókarfærslur bóndans smátt og smátt - og þess hryllilega raunalega og vel skrifaða saga vatt upp á sig sem bandhnykill væri.
Ég man ekki eftir að hafa kúvenst svona í skoðun á bók en þegar ég var búin með hana í vikunni byrjaði ég strax á henni aftur. Nú skil ég flugurnar og Aliide, Zöru og flóttann.
Það breytir því ekki að mér finnst hún dálítið stirðbusaleg í gang, um það hef ég sannfærst þegar ég les byrjunina aftur. Mér fannst það að nota orðið vöndul fyrir fullvaxna manneskju truflandi og finnst það enn. Mér finnst enn einstaka vondar málsgreinar en er nú opin fyrir fallegum líka:
Loks tókst henni að reisa sig upp og standa í fæturna en leit enn ekki framan í Aliide heldur þreifaði á hári sínu og strauk það yfir andlitið þó að það væri blautt og klístrað, breiddi hárið fyrir andlitið eins og druslulegar gardínur á eyðibýli þar sem ekki er lengur neitt líf sem þarf að draga fyrir (bls. 16).
Athugasemdir
Ég hef þurft tvær og jafnvel þrjár tilraunir til að lesa fjölmargar bækur. Það eru bækurnar sem ég byrja á og eru svo t.d. ekki meira spennandi en svo að ég jafnvel gleymi því að ég er að lesa þær og byrja á annarri. Nú er ég til dæmis búin með eina bók af þessu tagi og viti menn. Loksins þegar ég komst almennilega á flug með hana þá fannst mér hún frábær = Yosoy eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Ég gat hins vegar ekki lesið hana fyrr en ég var búin með Skaparann eftir sama höfund. Þá var eins og ég kveikti á því um hvað Guðrún er að skrifa og hvernig hún segir frá.
Ég ætti kannski að lesa að Söguna um sjóreknu píanóin og Fyrirlestur um hamingjuna fljótlega?
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 16.1.2011 kl. 17:47
Ég held bara, já, að þú ættir að gera það. Man að vísu ekki lengur hvað mér fannst um þær bækur. - Svo get ég bætt við að gangan á Esjuna var indæl í dag. Daði kom að vísu ekki þannig að það er óvíst að þú hefðir fengið lánaðan staf í klakann.
Berglind Steinsdóttir, 16.1.2011 kl. 22:24
Þessi bók hlýtur að vera mögnuð. Sjálfur var eg að lesa ævisögu Þorsteins Kjarvals, bróður Jóhannesar listmálara. Þessi ævisaga segir frá ótrúlega fjölbreyttu lífshlaupi merks manns sem kom víða við. Hann óslt upp fjarri æskustöðunum, var skútukall og síðar á enskum togurum. Hann var stór hluthafi í gullleitarfélaginu Málmur sem boraði eftir gulli í Vatnsmýrinni. Árið 1946 var ÞK stærsti hluthafinn í Eimskip, seldi það hlutabréfasafn sem Bragi bóksali sagði svo eftirminnilega frá. Andvirði bréfanna gaf hann að mestu til ýmissa félaga: Dvalarheimil sjómanna, Náttúrufræðifélaginu, Skógrækt ríkisins en Kjarvalslundur að Stálpastöðum í Skorradal er nefndur til heiðurs Þorsteini. Fleiri aðilar nutu stórgjafa frá Þorsteini. Ævisaga hans nær aðeins fram á 1. áratug 20. aldar, því miður en er feiknagóð lesning.
Góðar stundir
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 17.1.2011 kl. 22:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.