Fimmtudagur, 1. febrúar 2007
Útvistun fanga
Þegar ég var í leiðsögunáminu var mér sögð þessi saga:
Glæpatíðni er svo lítil á Íslandi að þegar keyrt er framhjá Litla-Hrauni er upplagt að segja þessa gamansögu: Einhverju sinni kom sendinefnd erlendis frá og vildi hitta íslenska fanga. Hún safnaði upplýsingum um þá fanga sem hún vildi helst ná tali af, hringdi svo í dómsmálaráðuneytið og spurði um fyrsta fangann, hvort hún mætti heimsækja hann í fangelsið næsta dag.
Já, var sagt í ráðuneytinu, það væri svo sem í lagi, en umræddur fangi þyrfti reyndar að vera við jarðarför ömmu sinnar og yrði því fjarverandi allan þann dag. Hann kæmi ekki til baka fyrr en kl. 9 um kvöldið.
Þá var spurt um næsta mann og svarið var að jú, það hefði verið í lagi nema vegna þess að sá fangi væri með almennt bæjarleyfi og yrði því ekki á staðnum.
Þá var enn spurt um hinn þriðja og sá reyndist vera í framhaldsskólanámi í nágrenninu og heldur ekki væntanlegur fyrr en liði á kvöld.
Þá þraut sendinefndina örendið og hún spurði hvað gerðist eiginlega ef fangarnir ekki skiluðu sér á réttum tíma. Henni var svarað með þjósti: Þeir þekkja reglurnar, það er læst kl. 9 og ef þeir eru þá ekki komnir til baka er læst og þeim ekki hleypt inn fyrr en næsta dag.
Þessi saga vekst upp fyrir mér þgar fréttir berast af föngunum sem sluppu úr fangelsinu á Akureyri og þurftu víst ekki mikið að hafa fyrir því.
Jóhann Ársælsson þingmaður hefur áhyggjur af aðbúnaði fanga. Ég las umræðurnar og með lagni tókst mér af því tilefni að fá Sigurlín til að yrkja eftirfarandi:
Á vistheimilum, væni minn,
er vonlaust neitt að geyma.
Fangar hlaupa út og inn
og aldrei eru heima.
Í vondum bælum vitrast þeim
að væri ekkert nonsense
ef allir kæmust inn í heim
Árna nokkurs Johnsens.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.