Sunnudagur, 13. febrúar 2011
Man ég þig?
Ég get varla munað titilinn á nýju bókinni hennar Yrsu þegar ég legg bókina frá mér og þá finnst mér hann vondur. Ég hefði viljað hafa eitthvað lýsandi að vestan, eitthvað sem vísaði á Hesteyri, eða þá Ísafjörð eftir atvikum. Hvernig hefði t.d. Hringsólað á Hesteyri hljómað? Látnir ganga aftur? Fortíðin er enn á Ísafirði? Ekkjur eru varhugaverðar? Fortíðin er framundan?
Mér heyrist fólk ekki amast við langa titlinum á bók Braga Ólafssonar þannig að þetta snýst varla um það að ná augum fólks í því tilliti. Nei, ég held að þetta varði stóra mál sögunnar, að sögurnar eru tvær.
Þær eru tvær og óskyldar framan af, alveg línulegar og óháðar þangað til í blálokin. Auðvitað veit lesandinn frá upphafi að þær munu ná saman í lokin en í hartnær 300 síður er fyrst sögð önnur sagan, síðan hin, síðan sú fyrri, síðan hin síðari. Mér leiðist sjálfvirkni og þótt sagan sé vissulega draugaleg og spennandi er hún svo yfirgengileg formúla að ég skil ekki þá almennu aðdáun sem hefur ómað út af þessari sögu. Að sönnu þakka ég fyrir að Þóra er ekki á staðnum því að hún er virkilega hundleiðinleg og karakterlaus persóna, að ógleymdri ritaranefnunni á lögfræðistofunni. Ég er svolítið veik fyrir íslenskum skáldsögum, ístöðulaus og þess vegna les ég aftur og aftur höfunda sem ég ætla ekki að gera. En nú töluðu menn hástöfum um að Ég man þig væri spennandi og svo draugaleg að fólk flýði í annarra manna faðma.
Ég las bókina í myrkri (það er nefnilega vetur) en aldrei sótti að mér hrollur, aldrei heyrði ég aukabrak í húsinu, aldrei missti hjartað úr slag. Auðvitað segir þetta meira um taugarnar í mér sem bilast bara þegar fólk nálægt mér leggur sig einfaldlega ekki fram, hvorki við nám né aðra vinnu, en ekki þótt einhver hleri opnist í skáldsögu.
Af því að þessi ritdómur er hvort eð er meira um mig en bókina ætla ég að rifja upp að mér varð sennilega síðast um og ó þegar ég sá Lömbin þagna í bíó og þó var komið fram á vor. Mér getur brugðið en ég verð ekki skelkuð í lestri.
Að þessu sögðu er ekki nema maklegt að ég ljóstri samt líka upp þeirri skoðun minni að plottið gengur að mestu leyti upp. Það eru krossristurnar og innbrotin sem ég fæ ekki almennilega botn í, en ég skil mannshvörfin, handanhrópin, svikin og sitthvað fleira sem ég vil ekki nefna af tillitssemi við þann sem á eftir að lesa Ég man þig.
Er ég kannski þegar búin að segja of mikið?
Athugasemdir
Æ, var ég ekki búin að segja þér að hún væri enginn hryllingur. Hef greinilega klikkað á því. En þetta er ágætis frásögn þannig.
Hrafnhidlur (IP-tala skráð) 14.2.2011 kl. 14:31
Jájá, ágæt, jájá. Svo er að sjá hvernig Ævar Örn verður, Önnur líf. Ég er núna með hana undir höndum. Einhverjum fannst hann sletta einhver býsn, held að það angri mig kannski ekki mikið. Og kannski slettir hann ekkert mikið. Ég læt vita ...
Berglind Steinsdóttir, 14.2.2011 kl. 19:00
Er að byrja á dávaldinum...
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 15.2.2011 kl. 08:48
Þýðingin á honum fékk 2. verðlaun bóksala fyrir jólin. Góða skemmtun.
Berglind Steinsdóttir, 15.2.2011 kl. 16:53
Sem minnir mig á að ég gluggaði í bók um sjónvarpskokkinn Nigellu um daginn og mæ ó mæ. Annan eins þýðingaróbjóð hef ég ekki lesið. Frá orði til orðs var enskunni hent yfir í íslensku og ENGIN tilraun til að vinna vinnuna sína almennilega. Ojj bara.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 16.2.2011 kl. 09:06
Best að forðast hana.
Berglind Steinsdóttir, 16.2.2011 kl. 23:10
Djassstandard.
Gummi (IP-tala skráð) 18.2.2011 kl. 00:38
Passspil, Gummi, passspil.
Berglind Steinsdóttir, 19.2.2011 kl. 10:30
sigggróinn (Önnur líf, bls. 115)
Berglind Steinsdóttir, 20.2.2011 kl. 10:05
hasssmyglurum (Önnur líf, bls. 222)
Berglind Steinsdóttir, 20.2.2011 kl. 22:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.