Föstudagur, 18. febrúar 2011
Smalalíf
Ekki aðeins er ég byrjuð að lesa Dalalíf (vísun í fyrirsögn) sem er löngu tímabært heldur ástundaði ég smalalíf í gær. Ekki í fyrsta sinni, að sönnu, en í fyrsta sinn á árinu. Ég fór með tæplega 50 Bretum á Langjökul (og sex vönduðum bílstjórum, seiseijá). Veður var fagurt og blítt, Skotar, Englendingar og Wales-búar rúntuðu um jökulinn (alls ósprunginn) á sleðum og slöngum. Já, fullorðnir karlmenn renndu sér glaðbeittir niður brekkurnar, snerust í hringi, köstuðust í snjóinn og brostu út að öxlum. Ég hef ekki tölu á hversu margir sögðu mér að þeir ætluðu að koma aftur og þá með fjölskyldurnar með sér.
Hins vegar höfðu mínir góðu vinir, bílstjórarnir, áhyggjur af eldsneytisverðinu. Það hækkaði frá því að við fórum úr bænum og þangað til við komum aftur í bæinn. Rekstrarkostnaður svona ökutækja er mikill og þegar eldsneytisverðið flöktir stöðugt upp á við, flöktir sem sagt ekki heldur stígur bara, þurfa ferðarekendur að bæta því með tímanum ofan á ferðirnar og þá gæti stofninn ofurskattaðir ferðamenn orðið ofurskattaðir ferðamenn sem hættu við að koma til Íslands og fóru í staðinn til Keníu. Þó höfðu bílstjórarnir fundið fyrir aukningu á árinu vegna hópa sem höfðu bókað til Egyptalands en ákváðu að setja öryggið á oddinn og koma til lands sem er ekki þekkt að óeirðum.
Ein fyrsta spurningin sem ég fékk þegar hópurinn kom til landsins var einmitt um eldsneytisverð og þótt það sé hér á bensínstöðvum áþekkt og í Bretlandi skilst mér að verðmyndun vegna bíla og reksturs þeirra sé að öðru leyti ósambærileg.
Þeir höfðu skiptar skoðanir á því hvort við ættum að ganga í Evrópusambandið. Ég þorði ekki að spyrja þá um þorskastríðin en sumir voru nógu gamlir til að muna þau.
Smalalífið var einfalt og gott enda úrvalshópur á ferð og flinkir hópstjórar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.