Þriðjudagur, 22. febrúar 2011
Um Aðra Líf (ég er ekki með hástafablæti)
Þá er ég búin með nýjustu bók Ævars Arnar Jósepssonar. Fyrst er að nefna titilinn sem er í nefnifalli, tjah, Önnur líf hélt ég en svo skildist mér að líklega snerist titillinn um stúlkuna Líf þannig að titillinn, sést ekki á bókarkápu, hlýtur að vera Önnur Líf. Bókin er strax orðin miklu skárri en glæpasagan Ég man þig sem ég las síðast. Reyndar er titillinn hræðilega áferðarljótur svona.
Nema hvað, góðkunningjar mínir, Katrín, Guðni og Árni, eru öxullinn í þessari bók að vanda. Þau eru breysk og broguð og full af fortíð sem ég kann að meta. Vegna smæðar íslensks samfélags er heldur ekki frítt við að þau séu klukkuð af samferðafólki sínu sem ýmist verður fyrir ofbeldi eða beitir því. Í lok sögunnar eru þessi þrjú mislöskuð og hafa ekki endilega náð stórkostlegum árangri í lífinu. Það verður eitthvað svo auðvelt að hafa samúð með og skilning á fólki sem ræður ekki örlögum sínum að fullu. Á prenti.
Sagan um hina baráttuglöðu Erlu Líf sem lætur ekki bjóða sér hvaða skít sem er náði fullum tökum á mér, og ekki síður fyrir það að hún þurfti að heyja marga hildi sem voru fyrirfram vonlausir. Hún tekur margar rangar ákvarðanir og geldur illilega fyrir það en á sinn hátt voru þær óumflýjanlegar. Fléttan gerir sig en mér til mikillar ánægju áttaði ég mig á henni um miðja bók. Næstum.
Meðfram glæpasögunni skýtur Ævar Örn náttúrlega föstum skotum á staðið samfélagið og meðvirknina í því.
Þrálátar slettur skrifaðar upp á íslensku bögga mig ekki baun. Hins vegar veit ég um eina sem hætti eða hugsaði a.m.k. um að hætta að lesa. Mín vegna mætti hann alveg slaka á í þessu sem og því að skrifa saman tvö eða þrjú orð. Skrýtið t.d. að sjá að minnstakosti (minnir það en er reyndar búin að láta bókina frá mér) og margt svona. Svo er náttúrlega púrítaninn í mér alltaf skammt undan og hvessti sig þegar bíllinn var sitt á hvað masda, Masda og Mazda. Ritháttur ýmissa annarra orða var líka með ýmsu móti þannig að bókin hefði alveg þegið einn lokalestur.
Breytir því samt ekki að ég húrraði mér í gegnum hana og var ekki svikin af sögunni.
Og þá er aftur komið að Dalalífi, lagði hana frá mér um daginn á bls. 85. Enn er enginn farinn að lepja kaffi af móð og ég bíð spennt eftir meintum kellingastílnum. Jón Trausti hvað?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.