Laugardagur, 26. febrúar 2011
Í skugga góðverka
Það verður bara að hafa það ef ég hljóma eins og fúlimúli en ekki vildi ég verða fyrir góðverki. Skv. Snöru er góðverk
| gott verk, verk til líknar e-m |
en hvað er góðverk í raun? Þegar einhver aumkar sig yfir mann! Ef ég gerði mömmu og pabba góðverk [greiða] með því að fara í heimsókn og spila við þau ... vildi ég ekki vera þau að þiggja það góðverk. Ég vildi, í þeirra sporum, að ég vildi koma í heimsókn. Ef einhver kaupir bakkelsi og kemur með óvænt í vinnuna - er það góðverk? Er það ekki bara einhver að gera eitthvað óvænt (ef svo) og skemmtilegt fyrir stemninguna, fyrir sig og hina?
Er það góðverk að horfa eftir því að eitthvert barn sem á leið yfir sömu götu og maður sjálfur komist yfir götuna? Er það góðverk barns við foreldra sína að fara að sofa þegar það á að fara að sofa? Og ef börnum er innrætt að það sé góðverk að gera sjálfsagða hluti er hætt við að þau fari að heimta sérstaka umbun fyrir það.
Þessi að-því-er-virðist úrillska er í boði góðverkavikunnar. Úrillskan þýðir alls ekki að mér finnist að fólk eigi ekki að koma fallega fram við annað fólk og umhverfi sitt. Ég vildi bara að hvatinn væri að fólk langaði til að gera hið rétta og umbunin væri sú að hafa gert rétt. Mér finnst gaman að koma fólki á óvart ... já, ef einhver vill fremja á mér góðverk er það með því að gera mig hissa og koma mér til að hlæja.
Persónulegri verð ég ekki á veraldarvefnum.
Athugasemdir
En hvernig er með eldhúshornið - á að baka bollur í ár?
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 3.3.2011 kl. 15:55
Styttist í bolludaginn? Þá hlýt ég að íhuga það, *geisp* Og þó, frekar lakkrístoppa af því að kókos„topparnir“ klikkuðu allir um jólin. Ég keypti súkkulaðihjúpaðan óþverralakkrís um daginn sem hlýtur að henta.
Berglind Steinsdóttir, 3.3.2011 kl. 18:35
lakkrístoppar eru uppáhalds á þessum bæ. Bara passa sig að hafa ekki of háan hita.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 3.3.2011 kl. 22:53
170 gráður í níu mínútur, stendur þar. Og ég á allt í toppana (ég leitaði nógu lengi til að finna uppskrift sem heimtaði ekki ljóst súkkulaði).
Berglind Steinsdóttir, 3.3.2011 kl. 23:43
Iss. Það er uppskrift á umbúðunum utan af lakkríssnum og svo sleppir þú bara ljósa súkkulaðinu. Simpel und plein.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 4.3.2011 kl. 10:16
Neibb, engin uppskrift. Lakkrísinn er frá Appolo. Oj?
Berglind Steinsdóttir, 4.3.2011 kl. 20:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.