Starfsmenn í úthringingum

Ég hjó eftir því í vikunni að níu starfsmönnum Símans sem unnu við að hringja í fólk og bjóða aðrar áskriftarleiðir var sagt upp vegna þess að þeir hökuðu við viðskiptavini án þess að hringja.

Það segir RÚV og það er eina ljósvakafréttin sem ég man eftir um málið.

Þá undraðist ég að upplýsingafulltrúinn virtist hafa samúð með starfsmönnunum sem höfðu brotið af sér en vék ekki aukateknu orði að þeim óþægindum sem viðskiptavinirnir höfðu hugsanlega orðið fyrir, sagði jú eitthvað um að viðskiptavinir hefðu fengið betra boð. Á þeirri stundu fannst mér að alls konar fólk hefði fengið upphringingu en það mun aðeins hafa verið hringt í viðskiptavini Símans.

Í gær heyrði ég á göngu minni um borgina að líklega hefði starfsfólkið verið skikkað til að gera þetta en hefði þurft að taka skellinn þegar einhver kvartaði. Og það er tónninn í Pressunni sem virðist hafa talað við báða aðila.

Ekkert veit ég - annað en það að ég vann einu sinni við símsölu á tryggingum tvö kvöld í viku og fannst það svívirðilega erfitt. Þegar kom að líftryggingum eftir áramót fannst mér að ég væri að boða ótíðindi, gat það ekki og hætti. Ekki held ég að nokkrum manni hafi dottið í hug að haka við einhvern sem sagði nei eða svaraði ekki.

Svo finnst mér endilega að Síminn hafi verið í fréttunum fyrir nokkrum mánuðum vegna einhvers leiðindamáls. Það kann að vera misminni en ég er samt fegin að vera annars staðar í viðskiptum. Ég vona að ég sé ekki eins andavaralaus og tugir símnotenda voru alveg áreiðanlega þar sem sagan segir að hakað hafi verið við 500 manns. Hversu margir kvörtuðu? Og fengu allir hinir betri áskrift?

Tortryggna Berglind er öll gengin efasemdunum á hönd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband