Bloggarafyrirkomulagið á dv.is

Bloggarar, sem eru ekki einsleitur hópur heldur hópur fólks með mismunandi þekkingu og mismunandi sýn, eru mér í sumum tilfellum mikilvægari fréttamiðlar en hinir meintu fréttamiðlar. Ef við ætluðum að byggja alla okkar þekkingu á bloggum yrði hún þó grágötótt, ég geri mér alveg grein fyrir að fréttir af ýmsu berast bara um eiginlegar fréttagáttir, en sýn bloggara er sem sagt mikilvæg viðbót og á köflum miklu skarpari en fréttamannanna. Ég hef þó samúð með fréttaflutningi því að hann á allur að vera byggður á staðreyndum og hinu óhrekjanlega en bloggarar geta leyft sér að leggja út af, túlka og spekúlera út og suður.

Já já, ég er farin að hljóma eins og Ragnar Reykás en mér finnst í alvörunni samhengi í þessu hjá mér, fréttir eiga að vera hlutlausar og yfirvegðar og eru fyrir vikið oft bitlausar og svo taka bloggarar fréttirnar og gefa þeim bit. Stjórnmálamenn geta líka leyft sér að segja að eitthvað sé það besta/versta í sögunni en t.d. sagnfræðingar verða að finna heimildirnar og geta þeirra.

Ég skil samt engan veginn þessa frétt um að JÁJ ávirði SH með vísan í greinargerð. JÁJ leggur augljóslega út af orðum í greinargerð sem fylgir ekki fréttinni og mér verður fyrst fyrir að hugsa að hann leggi, vísvitandi, ranglega út, beiti háði sem fréttavefurinn sannreynir ekki. Eitthvert árið gæti mér m.a.s. dottið í hug æsifréttamennska en ég held að þetta sé einfaldlega vangá BO sem virðist fyrir vikið ganga erinda JÁJ.

Þetta er það fyrsta sem ég hugsa þegar ég les fréttina. Veit ekki hið sanna. Finn ekki sambærilega frétt á Vísi og veit ekki með aðra miðla.

En það sem ég ætlaði að segja var að fínir bloggarar á DV blogga sumir hverjir aðeins of oft fyrir minn smekk og þess vegna gæti það farið svo að sama bloggaranafnið væri 10 sinnum í beinni línu niður. Nýjasta blogg bloggarans ætti að ýta eldri bloggum þess bloggara út af listanum, listinn yrði miklu áferðarfallegri og meira aðlaðandi. Það gerir Moggabloggið og sjálfsagt fleiri.

Það finnst mér. Jónas, Jenný og Teitur eru nú í margriti en áður var Eiríkur með stöku línurnar oft eftir nánast endilöngum listanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband