Dávaldurinn er tvöföld saga

Nú er ég búin að eyða nokkrum klukkutímum á hálfum mánuði í að lesa Dávaldinn eftir Lars Kepler, sögu sem lofsorði var lokið á fyrir góða þýðingu. Og ég er alls ekkert svikin, hún er spennandi og hún er vel þýdd.

Mér finnst það samt galli á sögunni hvað hún dettur í tvennt um miðbikið. Rammasagan er um lækninn og dávaldinn Erik og rannsóknarlögregluna Joona sem reyna í sameiningu að komast að því hvaða kaldrifjaði morðingi drap heila fjölskyldu af viðbjóðslegri grimmd.

Fljótlega virtist alveg liggja í augum uppi hver hinn seki væri og þá horfði ég á 400 ólesnar blaðsíður og velti fyrir mér hvað þar væri fjallað um. Það var alveg skemmtilegt að þá var farið út í alls kyns sálfræðilegar bollaleggingar - en þá kom hliðarsagan um leitina að syni Eriks. Og þar er sumt óleiðinlegt en sumt alveg hrútleiðinlegt, alltof ævintýralegt og minnti mig á leðurblökumyndina sem George Clooney lék í, mynd sem var ágæt fram í miðbikið og varð svo hvínandi óskiljanleg og leiðinleg eftir því. Dávaldurinn minnir mig líka dálítið á Da Vinci lykilinn sem er með ofmetnari bókum. Sú bauð upp á gátu sem höfðaði til mín og svo voru langir og hrútleiðinlegir kaflar með eftirför, byssuhríð, konu hlaupandi á háum hælum, þyrluflugi og öðru svona yfirgengilega hraða-spennutengdu. Dan Brown ætlaði að heilla alla markhópa í einni bók en tryggði sér um leið að ég hef ekki lesið fleiri bækur eftir hann. Og fæ enn kjánahroll við tilhugsunina um lykilinn hans.

Núna eru tveir dagar síðan ég kláraði Dávaldinn og ég er strax byrjuð að gleyma endinum. Það þarf ekki að spilla upplifuninni því að þegar til stykkisins kemur er það eiginlega sagan af Lydiu og uppvexti hennar, dáleiðslunni og úrvinnslunni sem sagði mér eitthvað. Unglingurinn Josef sem er næstum dáinn í byrjun rís af sjúkrabeði, hleypur uppi fólk og ratar á ólíklegustu staði - ótrúverðugt bull sem er komið í glatkistu minnisins. Og þótt ég sé byrjuð að gleyma kjánalega söguþræðinum þori ég næstum að hengja mig upp á að hann var ekki hnýttur alveg í lokin.

Best að lesa með væntingastuðulinn lágt stilltan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband