... engu til sparað?

Ég var að hlusta á hinn mæta þátt Kviku og þar sagði maðurinn að engu hefði verið til sparað. Hvernig verður svona málbreyting? Maður sparar peninga eða mikið eða lítið - eða ekkert. Er það ný þágufallslenska að segjast spara engu? Spara engu til?

Það er ekki Sigríður Pétursdóttir, umsjónarmaður þáttarins, sem sagði þetta heldur maður sem veit mikið um þýskar kvikmyndir og nú veit ég ekkert lengur hvað hann sagði.

Auðvitað fæ ég heilbrigðar efasemdir um sjálfa mig og málkennd mína. Þá fletti ég upp í google sem þekkir svo marga og margt. Á málfræði.is segir þetta:

Spara ekkert til

Orðasambandið kosta e-u/miklu/litlu/öllu til (e-s) vísar til þess er menn kosta fé/peningum til e-s og er það allgamalt í málinu. Orðasambandið spara ekki/ekkert til (e-s) er eldfornt, jafngamalt elstu heimildum. Í Íslensku hómilíubókinni stendur: vísar oss til þess fagnaðar er vér skyldum ekki til spara að vér næðum. Í nútímamáli gætir þess nokkuð að þessu tvennu sé ruglað saman svo að úr verður spara engu til, t.d.: Tyrknesk yfirvöld ætla engu til að spara í þeim ásetningi sínum (11.10.07); Engu er til sparað [til að gera tónleikana sem best úr garði] (16.8.07) og verður engu til sparað til að hafa upp á hinum seku (8.7.05).

Þá get ég haldið áfram að spyrja: Hvað veldur svona tilgangslausum málbreytingum?

Að svo mæltu verð ég að láta þess getið að mig rak í rogastans þegar ég las bls. 468 í Dalalífi Guðrúnar frá Lundi:

Þóra var sízt að skilja ...

Um miðbikið stendur (byrjar aftast í línu): Þóra var sízt að skilja, hvað þær gætu verið að tala saman, og fékk heldur aldrei að vita það.

Málbreytingin að vera ekki að skilja eitthvað er örfárra ára gömul. Þess vegna kemur þessi lína mér spánskt fyrir sjónir. Ég er ekki að skilja þessa bók er engin merkingarbreyting frá því að segja: Ég skil ekki þessa bók, bara málbreyting. Og mér finnst hún ljót og tilgangslaus og fyrst og fremst fletja tungumálið út og gera það einsleitara. Ég er ekki að gera eitthvað merkir nákvæmlega á þeirri stundu. Ég er að tala í símann NÚNA. Ég var að hlusta á útvarpið.

Dalalíf er merkileg bók, falleg og hrífandi saga um Jón á Nautaflötum og Þóru í Hvammi (ég er bara búin með fyrstu tvö bindin) en ekki síður er hún tíðarandalýsing, saga um útjaskaðar vinnukonur og aðra sem vinna í sveita síns andlitis, muninn á búsældarlegri sveitinni og sólríkari ströndinni, um gæði og vangæftir, útþrá, dauða og uppeldi. Kannski dálítið melódramatísk inn á milli en aðallega mjög trúverðug saga af breysku fólki sem á misgóðar stundir.

Allir líta upp til Lísibetar en hún dröslaðist með sitt þungbæra leyndarmál allt lífið. Jakob var gæfur og blíður og lagði öllum gott til en þjáðist áreiðanlega í hljóði fyrir útlitið. Jón sonur þeirra er miðdepillinn sem allir þrá og allir þrá að líkjast. Honum leiðist það ekki en þegar sorgin bankar á er hann óviðbúinn og ræður illa við mótlætið.

Ég á heil þrjú bindi eftir, best að skrifa ekki frá sér allt vit um ólesin hundruð blaðsíðna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband