Mánudagur, 21. mars 2011
Tek áminninguna til mín
Í gær voru Fjöruverðlaunin veitt í fimmta sinn. Á vef Rithöfundasambands Íslands er þennan nokkurra ára texta að finna um verðlaunin:
Þær raddir verða sífellt háværari sem segja að jólabókaflóðið og þær markaðsaðferðir, sem þá ráða ferðinni, gefi ekki rétta mynd af þeirri fjölbreyttu flóru rita sem gefin er út á Íslandi. Margar áhugaverðar bækur nái sér ekki á flot í flóðinu og drukkni jafnvel með öllu. Telja ýmsir að bókum eftir konur sé sérlega hætt við þessum örlögum.
Verðlaunin eru sem sagt veitt konum sem hafa tilhneigingu til að fara með veggjum. Ég er áhugamaður um bókmenntir en þessi verðlaun hafa farið framhjá mér þangað til núna. Ástæðan fyrir því að ég fór var að Marín, vinkona mín og langömmubarn Guðrúnar frá Lundi, var búin að lofa að flytja erindi um langömmu sína.
Hún gerði það líka, og hún gerði það vel. Fyrsta bók Guðrúnar frá Lundi kom út þegar hún var 59 ára. Hún þóttist ekkert vilja af skriftunum vita, reyndi að fara laumulega með þetta þráláta áhugamál sitt og þegar blaðamaður hringdi að sunnan til að grennslast fyrir um hana og ritstörfin gerði hún hvað hún gat til að stytta í samtalinu og draga úr öllu. Hún reyndi að þagga niður í sjálfri sér.
Nú er ég búin með tvö bindi af Dalalífi og þótt ég eigi 1600 síður eftir ætla ég samt að treina mér lesturinn og lesa ekki 3. bindið fyrr en ég fæ útgáfuna frá 2000 á bókasafninu. Ég lagði fyrir skemmstu út af bókunum og ætla ekki að endurtaka það hér.
Næst bar Guðrún Jónsdóttir, bókmenntafræðingur og bóka(vörður?) úr Borgarfirði, saman Guðrúnu og Indriða G. Þorsteinsson. Það var fróðlegt að rifja upp hvernig Guðrún hefur verið töluð niður fyrir meint kaffiþamb en Indriði upp. Samt er enn eftirspurn á bókasöfnunum eftir Dalalífi. Já, að sönnu er ekki alltaf best það sem meirihlutinn vill og velur, en Dalalíf er enn í pöntun á sumum bókasöfnum 60 árum eftir frumútgáfu.
En kannski er hugarfarið að breytast og Guðrún að fá sinn réttmæta sess. Guðrún Jóns sagði að Jón Yngvi, bókmenntafræðingur og háskólakennari, hefði einhverju sinni í tíma hafið Dalalíf á loft og beðið nemendur að hafa hugfast að það væri rangt að kalla þessar bækur ekki bókmenntir. Þetta sat í Guðrúnu og varð til þess að hún valdi bækurnar sem umfjöllunarefni í lokaritgerð.
Síðan voru verðlaunin veitt og það var hlý stund.
En nú kemur að þeim hluta sem gaf mér sinn undir hvorn. Tek aftur fram að ég kýs að taka áminninguna til mín þótt skipuleggjandi hafi gert sig seka um þöggun, óbeina kannski en samt sláandi. Þegar Ingunn tók dagspartinn saman í lokin og þakkaði gestum fyrir komuna tók hún fram að Árni Matthíasson á Morgunblaðinu ætti þakkir skildar fyrir að hafa vakið athygli á verðlaununum, fyrstu árin hefði verðlaunahafanna varla verið getið og þá ekki fyrr en talsvert var liðið frá athöfninni. Þá ræskti sig Jórunn Sigurðardóttir frá RÚV (Okkar á milli) og benti á að hún hefði fjallað um verðlaunin frá upphafi en líklega þætti Ingunni ekkert til þess koma að kona á Rás 1 hefði fjallað um þau, athyglina fengi karlinn á blaðinu.
Ég man ekki nákvæmlega hvernig orðin féllu og verð að hnykkja á því að ég tek áminninguna sem fólst, nei, opinberaðist í hógværri gagnrýni Jórunnar líka til mín. Ég held að konum hætti líka til að þagga niður góð verk kvenna. Við eigum enn langt í land og verðum að varast að reyna að falla í fjöldann - því að hann hefur ekki alltaf rétt fyrir sér.
Og nú ætla ég að halda áfram með Ljósu. Reyndar veit ég ekki hvernig Kristínu ætti að takast að skáka bókinni Sólin sest að morgni sem ég las um daginn og dáleiddi mig alveg.
Athugasemdir
En Ljósa er falleg og óumræðilega sorgleg og samt svo góð.
Ingibjörg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 22.3.2011 kl. 13:20
Grét og grét, ó já. Mjög hrifin.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 23.3.2011 kl. 19:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.