Sunnudagur, 3. apríl 2011
Þorsteinn í Okkar eigin Osló
Ég var búin að heyra ýmislegt um Okkar eigin Osló áður en ég fór. Þess vegna átti ég von á ýmsu misjöfnu. Og vissulega fannst mér brandarinn um hundinn lélegur.
En mér var skemmt, ég hló oft og mér fannst þar að auki persónusköpunin ganga upp. Þorsteinn leikur verkfræðinginn Harald sem er svo bóngóður og viljugur og ferkantaður og kúgaður af látnum föður sínum og slappur söngvari og strangur/góður við systur sína og hlýr og klaufalegur. Sem sá sanntrúaði lúser sem hann er í raun fer hann yfir strikið tvisvar eða þrisvar.
Brynhildur er Vilborg og enginn glæpamaður þótt vissulega hefðu einhverjir getað haldið það í Lækjargötunni.
Þau eru í burðarrullum.
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir fannst mér varla geta verið mamma Þorsteins en að öðru leyti smellpassaði hún í hlutverkið. Hilmi Snæ tókst að vera heldur ófrýnilegur sem er afrek í sjálfu sér. Að auki var hann Pálminn með gretturnar og minnimáttarkenndina sem braust út úr sjálfumgleðinni.
Handritið hafði óvæntar vendingar og tókst að koma mér á óvart. Fyrir utan að skemmta mér. Og ég var sko ekki sú eina sem hló í fámennum salnum, það heyrðust stöðugar rokur um allan salinn.
Reynir Lyngdal á áreiðanlega stóran þátt í þessu verki en Þorsteinn er kominn á stall hjá mér, hann er óborganlegur.
Athugasemdir
Þorsteinn hefur lengi verið á topplistanum hjá mér. Fórum öll fjölskyldan og skemmtum okkur alveg ljómandi vel.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 4.4.2011 kl. 09:27
Næst er það Kurteist fólk.
Berglind Steinsdóttir, 4.4.2011 kl. 17:14
Kurteist fólk ... er það ekki sérlegir vinir þínir?
Ásgerður (IP-tala skráð) 11.4.2011 kl. 22:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.