Svaðilför á Fimmvörðuháls

Einn fossinn var á haus

Með nesti og gamla skó héldum við af stað í morgunsárið á föstudag til að ganga á Fimmvörðuháls og skoða ummerki hins ársgamla eldgoss. Fyrstu kílómetrana og klukkutímana var allt á áætlun, m.a.s. fossa-, kókómjólkur- og rabbstundir. Þegar við nálguðumst Baldvinsskála (í 900 metra hæð?) var skyggnið ekki samt og áður en þó ekki svo að ógnaði göngunni þaðan upp í Fimmvörðuhálsskála (óveruleg hækkun, 1600 metra ganga).

Trússbíll var á leiðinni og óvíst um að hann kæmist alla leið í efri skálann. Jeppafæri er betra fyrr að vetrinum - en, hey, svo byrjaði að snjóa í dag á láglendi eftir smáhlé þannig að það er ekki á vísan að róa. En það voru efasemdir um að jeppinn kæmist lengra en í Baldvinsskála og við vissum ekki hvort við ættum að paufast áfram eða bíða í þeim neðri.

Við ákváðum að paufast lengra og þá gerði hóflegt mannskaðaveður. Við vorum öll svo vel búin að við vorum ekki í teljandi lífshættu. En við komumst í hættu því að við lentum í hálfgerðri sjálfheldu á svakalegum klakabunka í brekku með strekkingsvindi - svo ég dragi nú úr.

Við hringdum í fyllstu kurteisi í björgunarsveitir bara til að láta vita að við værum í vanda sem við gætum þó sjálfsagt komið okkur úr. Við fukum og runnum svolítið, snerum við og komumst aftur ofan í Baldvinsskála með því að elta okkar eigin spor. Skálinn var óupphitaður og hráslagalegur en þó miklu hlýlegri og sællegri en hallandi svellbunkinn - og trússbíllinn skilaði sér með þurr föt og svefnpoka.

Við hringdum aftur í björgunarsveitirnar og sögðum kurteislega farir okkar nokkru sléttari og að við myndum bjarga okkur. Daginn eftir, sem sagt í gær, fréttum við að 30 björgunarsveitarmenn hefðu verið komnir í viðbragðsstöðu og við kunnum þessum nafnlausu einstaklingum bestu þakkir fyrir að ætla að koma okkur til hjálpar.

Þetta er nú að verða nokkur upptalning hjá mér en ég er í og með að halda til haga ferðasögunni. 

Klukkan hefur trúlega verið orðin 10 þegar þarna var komið sögu og við fengum okkur af nestinu og prísuðum okkur sæl fyrir að komast úr háskanum meðan við skiptum yfir í þurr föt. Þegar því var öllu lokið sótti að mér svo óskaplegur höfgi að ég sagðist ekki geta hangið lengur uppi, henti mér í svefnpokanum á gólfið, skorðaði hausinn á tilfallandi tösku, setti undir svefnpokann lopapeysuna sem var farin að þorna (takk, mamma) og sofnaði snarlega í gangveginum. Rétt að rifja hér upp að þrír Belgar voru komnir á staðinn á undan okkur og voru á þessum tíma farnir að hrjóta í efra. Daginn eftir, sem sagt í gær, komumst við að því að þar uppi var gott pláss og þar voru dýnur!

Eftir góðan nætursvefn (minn) hundskuðumst við á lappir um 10 og tygjuðum okkur. Þá var væn rigningarskúr um garð gengin og við gengum og fengum far með trússbílnum á víxl, enduðum svo hjá Skógum um tvöleytið. Þá var rétt rúmur sólarhringur frá því að við fórum af stað á hálsinn!

Kaffi og kleinum var sporðrennt á Skógum og svo tók enn betra við. Við fengum inni hjá foreldrum eins ferðalangsins á leiðinni, hituðum matarmiklu gúllassúpuna og borðuðum okkur pakksödd.

Gaman að fara og gaman að koma aftur heim. Mæli með hæfilegum ævintýraferðum en sérstaklega mæli ég með að fólk fari VEL BÚIÐ og með bunka af stóískri ró. GPS, alls kyns hnit og þekking í að nota slíkt þarf líka að vera með í för. Nothæfur GSM-sími léttir lífið.

Við hittum rjúpur í vetrarbúningnumSvona leit það verst út

Sumir fengu marbletti á hnénEn ég varð aðallega syfjuð


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband