Aðdáendur tónlistar

Ég þekki venjulega launamenn sem eiga ársmiða á tónleikaraðir og ég þekki ofsalega marga sem hafa ekki áhuga á alls kyns tónlist. Ég fylgdist í gærkvöldi með útsendingu úr Hörpu og fannst sumt ævintýralega skemmtilegt. Meðfram fylgdist ég með umræðu um elítuna.

Kannski er ég meðvirk - það er algengur sjúkdómur - en það truflaði mig ekki neitt hverjir fengu að mæta á tónleikana í gær. Það er kannski hallærislegt að sumar stéttir fái (en langar kannski ekki alla úr þeim stéttum) ókeypis á viðburði sem eru í eðli sínu ekki ókeypis en sá hallærisgangur byrjaði ekki föstudaginn 13. maí. Þetta er lenska sem er eldri en ég.

Stóra spurningin sem brennur á mér er: Hvers vegna borga glæpamenn ekki fyrir glæpi sína með frelsi sínu eða fé (þá fjárglæpamenn)?

Mér dettur í hug að lög séu götótt og nái ekki yfir afbrotin.

Ef það er rétt hjá mér get ég spurt: Hvers vegna er því ekki breytt?

Þegar heill og hamingja fólks (sem óneitanlega felst að vissu leyti í að hafa nóg að bíta og brenna) er í húfi er mér slétt sama um tónlistarhúsið - sem ég viðurkenni að ég hlakka samt til að berja augum utan og innan. Landsbyggðinni er mismunað sem endranær en ég er í Reykjavíkur-elítunni og fæ að skoða að vild um helgina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband