Sunnudagur, 5. júní 2011
Grr, umbúðaþjóðfélagið
Sem betur fer bjóða æ fleiri fyrirtæki upp á pappírslaus viðskipti. Gallinn er að vísu sá að þá hefur notandinn, a.m.k. ég, skerta meðvitund um viðskiptin, kostnað, breytingar á verði og hugsanlega breytta þjónustu. Kostirnir eru hins vegar ótvírætt minni pappírseyðsla, minni prentun, minni útburður og líklega færri tré í valnum.
Nú er ég búin að fara í gegnum alls kyns kassa vegna flutninga og sé að ég hef staðið mig illa í að henda jafnóðum. Ég held alltaf að ég muni nota bakhliðina á umslögum til að skrifa t.d. innkaupalista en er ég bara svo minnug að ég þarf ekkert að skrifa til minnis ...
Hins vegar eru kaupmenn ekki enn tilbúnir að koma til móts við mig. Margar vörur eru í smærri einingum í umbúðum og svo aftur í frekari umbúðum, gjarnan plasti sem brotnar illa niður og eyðist seint. Kjöt er í frauðbakka og svo er plast utan um. Engin áhersla er á að endurnýta allt þetta plast sem fyllir plastruslapokana okkar.
Nú er ég með svalir og garð og ætla að reyna að endurnýta allt lífrænt, t.d. kaffikorg og grænmeti, og gera aftur að moldu. En mikið myndi nú sveitarfélagið gera vel í að koma upp grænum tunnum hjá hverju húsi frekar en að mæla metrana frá götu til að rukka einhverjar krónur út á skrefin.
Athugasemdir
Hahhh, þú ert nú svo heppin að búa í sveitarfélagi sem ætlar að gera bæði. Síðar á þessu ári á að koma lífrænum boxum í tunnurnar okkar. Bíddu bara augnablik.
Hrafnhildur, innilegur stuðningsmaður 15 m reglunnar.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 6.6.2011 kl. 11:08
ps. fór í Víði á laugardaginn. Það er fín búð.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 6.6.2011 kl. 11:09
Ég held bara að 15 metra reglan sé ósanngjörn en hún bitnar ekki á mér. Fólk þarf að hafa val og það er of mikið maus fyrir flesta að vakta dagana sem sorphirðan er í hverfinu.
Verð að tékka á þessum Víði, er með böggum hildar yfir að hafa látið mér sjást yfir á laugardaginn. Grr, fer aldrei framar í Epal og Cösu.
Berglind Steinsdóttir, 6.6.2011 kl. 16:27
Fólk hefur einmitt val - borga, færa tunnu varanlega, færa tunnu stundum.
Fór líka í Víði í gær :o)
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 7.6.2011 kl. 10:10
Jæja, ég hef greinilega ekki sett mig inn í 15 metrana. Hef samt heyrt fólk tala með grátstafinn í kverkunum um foknar tunnur, sennilega út af misvindum Reykjavíkur.
Berglind Steinsdóttir, 7.6.2011 kl. 17:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.