Miðvikudagur, 22. júní 2011
Danslärarens återkomst
Ég held að ég hafi bara ekki lesið neina bók eftir Henning Mankell fyrr en ég las núna Danskennarinn snýr aftur. Samt held ég að ég eigi nokkrar af bókum hans á sænsku og þarf þá að gá að þeim því að hann var alveg prýðilegur.
Drifkraftur bókarinnar er illska, mannfjandsamlegheit, fyrirlitning og dramb sem höfundur eignar þjóðernissósíalisma sem er þýðing á nasisma. Ég man eftir fréttum af hakakrossi í mótmælum á Austurvelli í fyrrahaust og ég man að okkur þótti sumum sem fáninn fengi ekki næga athygli, að tilvist hans væri ekki gagnrýnd nægilega. Ég er illa lesin í nasískum fræðum en þykist vita að þau sem aðhyllast þau telji sig öðrum kynþáttum og ýmsu fólki æðri. Áhangendur í bókinni telja sig hafa fullt umboð til að uppræta óæskilega þjóðfélagsþegna og ráða, deila og drottna.
Ég er sjálf vafin í svo mikla bómull að ég þekki ekki þessi sjónarmið nálægt mér og hef greinilega tekið hraustlegt athyglishlé í öllum tímum þar sem fjallað var um þessar kenndir því að líklega hef ég allt mitt litla vit um málið úr sjónvarpsþáttum eins og Helförinni, bókum og svo heimsókn í útrýmingarbúðir. Ég hef kannski aðeins of litlar áhyggjur af því að ég trúi ekki að fólk geti verið mjög ógeðslegt. Nú orðið.
Danskennarinn er auðvitað líka hlaðinn alls kyns hliðarsögum, s.s. af krankleika lögreglumannsins, Stefans Lindmans, hvort keiluspil geti upprætt streitu, skælum móttökustúlkunnar á hótelinu, rauðeygðum Guiseppe - hvernig getur Svíi heitið það? - og konunum sem bíða heima.
Ég mun þó líklega forðast sambærilega þýðingu aftur. Bókin er að sönnu á fimmta hundrað síður en ásláttarvillur samt of margar og orðaröð of víða óíslenskuleg. Og því ekki að halda sænskunni sinni við?
Athugasemdir
Ég á stafla af Mankell handa þér... en allan á íslensku.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 23.6.2011 kl. 09:29
En ég er til í að skoða safnið þegar ég skila Danskennaranum, Ljósu og þriðju bókinni ...
Berglind Steinsdóttir, 23.6.2011 kl. 16:51
Er núna í þríleik Stieg ... ohhh hvað það er gaman.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 15.7.2011 kl. 00:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.