Fimmtudagur, 28. júlí 2011
Hótelhringnum lokað
Hótel Gígur - Icelandair á Akureyri - Hótel Hamar - Hótel Selfoss - Hótel Höfn - Fjarðahótel.
Fólkið mitt var kátast með Mývatnssveitina og almennt með Norðurland, enda rigndi fyrir sunnan. Því fannst maturinn alls staðar í hringnum góður og sleikti næstum súkkulaðikökudiskana hreina á Reyðarfirði í gærkvöldi. Ég leifði þeirri köku, enda kann ég ekki gott að meta þegar um er að ræða súkkulaðikökur.
Undrunarefni mitt í þessum hring var að sjá afar fáa bíla og verulega fáar rútur. Samt fannst mér ég fara öfugan hring, þ.e. fór frá Egilsstöðum í Mývatnssveitina og svo áfram. Það getur ekki verið að eldsneytisverðið hafi svona mikil áhrif. Er það Múlakvíslin? Ég fór yfir bráðabirgðabrúna í gær og hugsaði hlýlega til Vegagerðarinnar eins og ég hef gert alveg frá því að fyrstu fregnir bárust. Hins vegar var ég mjög ergileg þegar við tókum stefnuna á nýju brúna yfir Hvíta, á leið frá Gullfossi í Friðheima, og allt það umhverfi var ómerkt með öllu. Bílstjórinn minn var fínn en hann var útlenskur og gat hvergi dregið mig að landi þannig að ég tók sénsinn og slapp fyrir horn - yfir ána.
Dettifoss var ekki svipur hjá sjón undir vökulu auga björgunarsveitarmannanna í síðustu viku. Kannski fannst mér bara svona gaman að tala við þá - en fólkið mitt lagði af stað til baka langt á undan mér og fannst Dettifoss hálfgert rusl vestan megin. Þjóðgarðurinn seldi Ridley Scott tvo daga yfir hásumarið og getur lagt stíga þvers og kruss fyrir peninginn skilst mér.
En þetta er töff og smart og kúl land sem við eigum og áhugi minn á því glæðist stöðugt. Ef eldsneytisverðið heldur áfram að hækka og fólk tímir ekki eða hefur ekki efni á að ferðast um það verður kannski gott pláss fyrir mig á hjólinu ...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.