Furðustrandir - lausar við húmor

Að sönnu fjallar nýjasta saga Arnaldar um grátt morðmál, mál sem ekki er hlæjandi að, sorg og trega, vanlíðan og dapurleg örlög. Erlendur getur ekki lagt til hliðar hvarf bróður síns og fer austur á firði í fríinu sínu og kemst þá á snoðir um annað mannshvarf, 60 ára gamalt, og linnir ekki látum, ærir mann og annan sem öll [svo] eru á því meira og minna að liðið sé liðið.

Mér finnst ennþá Grafarþögn besta bókin þar sem Arnaldur nær snilldarlega að flétta saman samtímalega atburði, heimilisofbeldi og fornt glæpamál, aðallega út af skírskotuninni til nútímans. Eins finnst mér, eða fannst, Dauðarósir furðulega lítið umtöluð saga þar sem Arnaldur snerti á rammpólitísku fiskveiðistjórnarmáli og byggðaröskun.

Í Furðuströndum fléttar Arnaldur aftur inn í söguna sína alvörumannskaða og á hrós skilið fyrir fagmennskuna. Erlendur rúntar Fagradalinn fram og aftur og fer vítt og breitt um Austfirðina sem er gaman, fyrir mig ekki síst af því að ég náði að spóka mig þar aðeins í sumar (já, maður er upptekinn af sjálfum sér), en mér finnst að höfundar megi krydda með votti af húmor og almennum skemmtilegheitum. Er það frekt af mér?

Eina skiptið sem ég skellti upp úr, og efast um að menn hafi gert það heilt yfir, var þegar afgreiðslustúlka sagði honum í stað hann og á eftir kom setningin: Það var eins og hún hefði aldrei fengið neitt við þágufallssýkinni.

Ég finn ekki setninguna við snöggar flettingar, en þetta var eina skiptið sem ég hló að bókinni og mér finnst það aðeins of sjaldan.

Annars bara ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband