Fimmtudagur, 11. ágúst 2011
Finnst SAF ekkert þegar öryggi gesta landsins er í hættu?
Nú hefur iðnaðarráðherra tjáð sig um ferðir um hálendi Íslands á vegum erlendra ferðaskrifstofa.
Ef ferðaskrifstofa hefur hlotið tilskilin leyfi í einu Evrópulandi þá á hún að geta starfað í allri álfunni. Þetta gildir einnig um íslenskar ferðaskrifstofur sem er heimilt að fara með hópa á sínum vegum til annarra landa.
Ég þykist vita að í mörgum Evrópulöndum þurfi íslenskar ferðaskrifstofur að ráða þarlenda leiðsögumenn til að fara með sér, sjálfsagt af öryggisatriðum og líka upp á staðbundna þekkingu. Er okkur vandara að gera slíkar kröfur til þeirra sem koma hingað?
Leiðsögumenn hafa farið fram á löggildingu starfsheitis síns í mörg ár en erindið verið tafið í sífellu og sent milli ráðuneyta. Umfram allt hefur það strandað á afstöðu SAF, Samtaka ferðaþjónustunnar. Ég vil ekki nafngreina neina þótt ég gæti það (af því að það væri eins og að vitna í tveggja manna tal) en SAF hafa ekki viljað ljá máls á erindi okkar vegna þess að þá gætu nokkrir nafntogaðir menn ekki sinnt leiðsögn þar sem þeir eru ekki skólagengnir leiðsögumenn. Stjórn Félags leiðsögumanna hefur boðist til að prófa þá til að þeir geti fengið réttindi og jafnvel viljað íhuga að veita þeim undanþágu. Allt hefur komið fyrir ekki.
Kannski eru þessi rök ekki sérlega skotheld vegna nafnleysis en ég veit samt að SAF standa í vegi fyrir því að auka öryggi farþega í landinu með þessari stífni sinni. Og ætlar forystan þar ekki að opna munninn út af gáleysisakstri tékknesku rútunnar? Eru SAF í sólarfríi eða sofandi um þessar mundir?
Sjálf nýt ég lífsins á svölunum mínum í sumarfríinu en ef ég bæri þessa ábyrgð myndi ég reyna að axla hana.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.