Föstudagur, 12. ágúst 2011
,,Fyrirgefið, en þetta var samt ekki mér að kenna"
Ég heyrði í ferðamálastjóra í útvarpinu áðan. Hún er ósköp hófstillt og yfirveguð (ég bíð samt enn eftir yfirlýsingum frá framkvæmdastjóra SAF) en ég held að hún hafi ekki lög að mæla þegar hún segir að hvaða Íslendingur sem er geti stofnað ferðakompaní eftir íslenskum lögum og farið í Alpana með hópa án þess að gera grein fyrir sér. Í mörgum Evrópulöndum (og örugglega víða utan Evrópu) þarf að hafa heimamann með í för. Þetta snýst ekki um þjóðernið, þetta snýst um þekkinguna og umgengnina.
Og nú biður framkvæmdastjóri Adventura okkur afsökunar á hvernig fór en segir um leið að við gætum ekki hófs.
En segið mér, fréttamenn, af hverju spyrjið þið ekki (ykkur) þegar hann segir að fyrirtækið hans sé stærsti viðskipavinur Icelandair hvort fólkið fljúgi en trukkurinn komi með Norrænu? Það getur vel verið en það er allt í lagi að ganga úr skugga um það. Margir farþegar koma nefnilega með bílunum. Og í öðru lagi væri þá gaman að vita hversu stór hluti í veltu flugfyrirtækisins væri vegna þessa fyrirtækis. Má ekki kanna það?
Að lokum, ég hef hitt fólk í vikunni sem sá gulan tékkneskan bíl fara geyst á Snæfellsnesi í fyrra. Þessi glæfraakstur sem endaði í Blautalóni er hvergi nærri einsdæmi. Og myndirnar sem hafa birst að undanförnu sá ég líka á jeppaspjalli.
HVAÐ ÆTLA FERÐAMÁLAYFIRVÖLD AÐ GERA? Eru þau ráðalaus? Ná hvorki lög né reglugerðir yfir glæpsamlega meðferð á landinu eða akstur sem getur gert út af við fólk?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.