Ketilríður - Merkútsíó - Skafti Tímóteus

Ég var á málþingi um lífið í Hrútadal á laugardaginn mér til lítt blandinnar gleði. Það var smekkfullt í félagsheimilinu Ketilási, svipað og mér skilst að hafi verið á hliðstæðu málþingi í fyrra.

Hallgrímur Helgason rithöfundur var stjarnan á festingunni, fyndinn að vanda og rökstuddi gríðarlega vel af hverju Dalalíf lifir og lifir, er lesin og rædd. Ég hef nú bara lesið Dalalíf einu sinni (2187 síður) og hann líka en auðvitað féllum við ekki endilega fyrir sömu lýsingunum og sömu málsgreinunum. Dalalíf þyldi alveg annan lestur en mér er til efs að ég lesi bókina aftur, læt duga að muna það sem ég man.

Hallgrími fannst Ketilríður alveg mögnuð. Ég geld kannski fyrir að ég var búin að heyra um Ketilríði sem magnaða kerlingu áður en ég las bókina og mér finnst hún bara svona og svona. En Hallgrímur var með þá kenningu að Ketilríður hefði verið látin hrökkva upp af eftir stutta dvöl í sögunni (þótt hún væri orðin afgömul, a.m.k. fimmtug ...) vegna þess að ella stæli hún senunni frá aðalpersónunum. Svo bar hann saman við Hamlet og Merkútsíó og varpaði fram þeirri kenningu (sinni eigin?) að Merkútsíó hefði safnast til feðra sinna svo fljótt til að varpa ekki skugga á Hamlet.

Þá rann upp fyrir mér ljós. Ég er að lesa Jón Sigurðsson eftir Guðjón Friðriksson, já, hann þarna frelsishetjuna sem hefði orðið 200 ára um daginn ef hann hefði lifað af dauða sinn og nú þori ég varla að skrifa það sem ég les út úr fyrstu 100 blaðsíðunum hjá GF. Skafti Tímóteus hét samtíðarmaður Jóns, skarpgreindur mannfjandi sem hefði veitt greind JS fáránlega samkeppni ef ...

Get ekki skrifað það, þetta er svo svakaleg tilhugsun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

lítt blandinnar gleði = 90% gleði - er nokkur ósammála þeirri túlkun?

Berglind Steinsdóttir, 15.8.2011 kl. 22:21

2 identicon

ja ég veit allavega hvar 10 prósent minnar blöndnu gleði liggja  - á sama stað og þín?

Oddný (IP-tala skráð) 15.8.2011 kl. 23:24

3 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Leshringurinn?

Berglind Steinsdóttir, 16.8.2011 kl. 08:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband